Þjónusta geðheilsuteyma HH efld með þátttöku borgarinnar

Mynd af frétt Þjónusta geðheilsuteyma HH efld með þátttöku borgarinnar
15.10.2019

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins (HH) og Reykjavíkurborg hafa gert með sér samstarfsyfirlýsingu ásamt samningi sem kveður á um þátttöku þjónustumiðstöðva velferðarsviðs í verkefnum geðheilsuteyma HH. 

Óskar Reykdalsson, forstjóri HH og Regína Ásvaldsdóttir sviðstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar undirrituðu samstarfsyfirlýsinguna og samninginn í dag í húsnæði Geðheilsuteymis vestur. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri staðfestu samkomulagið og samstarfsyfirlýsinguna.

Samstarf sem markar tímamót

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir samstarfið marka tímamót og engan vafa leika á því að það muni efla og bæta þjónustu geðheilsuteymanna við notendur. „Ég bind líka vonir við að þessi samningur geti orðið fyrirmynd að fleiri verkefnum þar sem ríki og sveitarfélaga geta bætt þjónustu við notendur með formlegu samstarfi sem þessu.“

Mikilvægt samstarf af mörgum ástæðum

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir samkomulagið mikið fagnaðarefni og mikilvægt af mörgum ástæðum. „Borgin vann ákveðið frumkvöðlastarf uppi í Breiðholti með samstarfi þjónustumiðstöðvar og Geðheilsustöðvar Breiðholts (nú Geðheilsuteymi HH austur) og fékk nýsköpunarverðlaun í opinberri þjónustu fyrir það verkefni þar sem innlagnardögum á geðdeild fækkaði um 25 – 30% hjá þeim sem fengu þjónustuna. Þetta nýja samstarf byggir á sömu hugmyndafræði. Að því sögðu er ég mjög ánægður og stoltur af því að geta veitt borgarbúum enn betri þjónustu í geðheilsumálum,“ 

Eins og fram kemur í samstarfssamningnum eru aðilar sammála um að þörf sé á nánara samstarfi heilbrigðis- og velferðarkerfis. Oft sé óljóst hvar mörk þjónustunnar liggja og það geti haft áhrif á að viðkomandi einstaklingur fái viðeigandi þjónustu. Því er með samkomulaginu sett það markmið að skapa vettvang sem stuðlar að samþættri og samfelldri þjónustu við einstaklinga og aðstandendur sem fá þjónustu hjá geðheilsuteymunum og þjónustumiðstöðvum borgarinnar.

Samkomulagið byggist einnig á ályktun Alþingis frá árinu 2016 um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára. Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir að bundið verði í lög að ríki og sveitarfélög geri með sér samstarfssamninga um útfærslu samþættrar þjónustu við einstaklinga með geðraskanir.

Félagsráðgjafar frá Reykjavíkurborg munu starfa í geðheilsuteymunum

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins rekur tvö geðheilsuteymi fyrir íbúa Reykjavíkur, annað fyrir austursvæði Reykjavíkurborgar með starfsstöð á Stórhöfða 23, hitt fyrir íbúa mið- og vestursvæðis borgarinnar með starfsstöð við Skúlagötu 21. Hvort teymi hefur á að skipa tólf stöðugildum. Með samstarfssamningnum mun velferðarsvið Reykjavíkurborgar tryggja til viðbótar framlag félagsráðgjafa í báðum teymum sem nemur 100% starfshlutfalli í hvoru teymi. Félagsráðgjafarnir verða starfsmenn velferðarsviðs sem stendur straum af launum þeirra og öðrum kostnaði en munu í störfum sínum fyrir geðheilsuteymið heyra undir sömu stjórnendur og aðrir starfsmenn geðheilsuteymanna. Þriðja geðheilsuteymi HH sem er að hefja starfsemi sinnir íbúum Hafnarfjarðar, Kópavogs og Garðabæjar.

Fyrirmynd að samstarfi á fleiri sviðum

Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir samkomulagið geta orðið fyrirmynd að samstarfi á fleiri sviðum: „Meira eða minna öll þjónusta heilsugæslunnar hefur mikilvæga snertifleti við félagsþjónustu sveitarfélaganna. Þetta á til dæmis við um skólaheilsugæsluna, ungbarnaverndina og öldrunarþjónustuna. Kerfin hafa eftir megni reynt að vinna saman en formlegt samstarf eins og þetta mun gera vinnu okkar mun markvissari og þjónusta við notendur verður betri“ segir Óskar.

Á efstu myndinni eru frá vinstri Óskar, Svandís, Dagur og Regína.

Á myndinni hér fyrir neðan handsala Óskar og Regína samkomulagið.

 

Óskar vonar að þetta verði fyrirmynd að samstarfi á fleiri sviðum

Hópmynd af viðstöddum sem voru auk ofantalinna, m.a. teymisstjórar og aðrir starfsmenn geðheilsuteymanna þriggja.

Frétt leiðrétt 16. október