Geðheilsa og heilbrigðisþjónustan

Mynd af frétt Geðheilsa og heilbrigðisþjónustan
27.09.2019

Geðheilbrigðiskerfið hefur oft á tíðum þótt þungt í vöfum og flókið. Mörgum fundist skorta úrræði, fjölbreytileika og samvinnu. Einstaklingurinn sem málið varðar veit oft á tíðum ekki hvert á að leita en óumdeilt er að mikilvægt sé að ræða vandann við sína nánustu. Jafnframt vera upplýstur um þær leiðir sem eru í boði. Reyndar eru til mörg úrræði sem sinna geðheilbrigðisþjónustu þó að oft sé erfitt fyrir almenning að átta sig á hver gerir hvað.

Vægari vanda er hægt að leysa inni á heilsugæslu í viðtali við heimilislækni eða sálfræðing. Aðrir kjósa að fara til sálfræðinga eða geðlækna á stofu. Enn aðrir þurfa meiri aðstoð og leita þá til geðsviðs Landspítalans. Fyrir utan þessa þjónustu eru ýmis félagasamtök og endurhæfingarstofnanir sem hægt er að leita til fyrir utan félagsþjónustuna.

Oft er heilbrigðisþjónustunni skipt í stig eftir því hve vandinn er alvarlegur. Fyrsta stigið á við heilsugæsluna, annað stig á við þegar vandinn er orðinn langvinnur og flókinn og þriðja stigið er sjúkrahúsþjónusta. 

Þrjú geðheilsuteymi á höfuðborgarsvæðinu

Innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins munu starfa þrjú geðheilsuteymi sem eru svæðisskipt. Geðheilsuteymi austur sem þjónustar austur hluta Reykjavíkur, geðheilsuteymi vestur sem þjónustar íbúa vestan Elliðaáa, geðheilsuteymi suður mun sinna Kragasvæðinu en verið er að undirbúa starfsemi teymisins. Geðheilsuteymin eru þverfagleg 2. stigs geðheilbrigðisþjónusta.

Í þeim starfa hjúkrunarfræðingar, geðlæknar, sjúkraliði, íþróttafræðingur, fjölskyldufræðingar, iðjuþjálfi, sálfræðingar, þjónustufulltrúar ásamt notendafulltrúum sem eru einstaklingar með persónulega reynslu af geðröskunum. Þétt samstarf er við þjónustumiðstöðvar með aðkomu félagsráðgjafa í teymin. Atvinnulífsráðgjafi frá Virk hefur haft aðkomu að þjónustu teymanna.

Hver velji sína leið

Lykilþættir þjónustunnar eru að hún er veitt í nærumhverfi fólks, stuðst er við batahugmyndafræði og gagnreyndar aðferðir. Einstaklingur er því aðstoðaður með þeim leiðum og stuðningi sem henta honum hverju sinni. Því sé haft í huga að hver og einn velji sína leið, að bati sé einstaklingsbundinn og geti tekið mislangan tíma. Í teymunum er einstaklings- og fjölskylduvinna ásamt fræðslu en námskeið eru stór hluti af starfseminni. Geðheilsuteymin styðjast einnig við hugmyndafræði FACT þar sem sveigjanleiki þjónustunnar er í fyrirrúmi, einstaklingsbundin málastjórn og samvinna þvert á ólík svið.

Reynsla og rannsóknir sýna óumdeilanlega að góður lífsstíll er frumforsenda góðrar geðheilsu. Því er áhersla á gott mataræði, hreyfingu og svefn samhliða vinnu með tilfinningalega líðan, ásamt því að efla von, bæta sjálfsmynd, bjargráð, virkni og tengslanet. 

Stefna í stöðugri þróun 

Starfsemi geðheilsuteymanna fer fram með viðtölum á starfsstöð og/ eða heimavitjunum eftir því sem þörf er á hverju sinni. Til að tryggja samfellda þjónustu með hagsmuni einstaklingsins að leiðarljósi eiga geðheilsuteymin gott samstarf við aðrar stofnanir ásamt félaga- og notendasamtökum. En stefna geðheilsuteymanna er að vera í stöðugri þróun og horfa til þarfa þjónustuþega hverju sinni. Þeir einstaklingar sem þiggja þjónustu teymanna eru á breiðu aldursbili (18 ára og upp úr) því er mikilvægt að sníða þjónustuna að hverjum og einum. Óumdeilt er að notendur hafa mikilvæg áhrif á þjónustuna en samvinna þeirra innan þverfaglegs teymis við fagfólk úr ólíkum stéttum er mikilvægur hlekkur þjónustunnar.

Á vefnum heilsuvera.is má lesa um ýmsar leiðir til að bæta andlega líðan.

Sigríður Hrönn Bjarnadóttir, geðhjúkrunarfræðingur og teymisstjóri Geðheilsuteymi HH austur  

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu