Höfðingleg gjöf Oddfellow

Mynd af frétt Höfðingleg gjöf Oddfellow
25.09.2019

Oddfellowreglan á Íslandi átti nýlega 200 ára afmæli. Af þessu stóra tilefni sameinuðust regludeildirnar í Hafnarfirði, ásamt styrktar- og líknarsjóði Oddfellow, um að styrkja Heilsugæsluna Fjörð, Heilsugæsluna Sólvangi og Heilsugæsluna Garðabæ um samtals 9 milljónir króna. Regludeildirnar í Hafnarfirði eru sjö talsins og telja um 500 manns.

Á þessum tímamótum voru húsakynni Oddfellow á landsvísu í fyrsta sinn opin almenningi. Regludeildirnar í Hafnarfirði tóku á móti gestum í bækistöðvum sínum við Staðarberg 2. Þar veittu fulltrúar heilsugæslanna þriggja þessum höfðinglegu styrkjum viðtöku og Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri þakkaði Oddfellow fyrir hönd Hafnarfjarðarbæjar. 

Styrkirnir koma sér ákaflega vel. Þeir hafa þegar verið nýttir til tækjakaupa sem gera okkur kleift að bæta þjónustu við íbúana. Mismunandi er eftir stöðvum hvaða tæki voru keypt. Á listanum eru t.d. ungbarnavogir, kvenskoðunarstólar, skoðunarbekkir, heyrnarmælingatæki, súrefnismettunarmælar og aðgerðaljós.

Við hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins þökkum kærlega fyrir þessa stóru gjöf og ekki síður fyrir hlýhug Oddfellow í okkar garð.

Á myndinni eru frá vinstri:Ásmundur Jónasson svæðisstjóri og fagstjóri lækninga, Heilsugæslunni Garðabæ, Margrét Björnsdóttir fagstjóri hjúkrunar, Heilsugæslunni Garðabæ, Thelma B. Árnadóttir fagstjóri hjúkrunar, Heilsugæslunni Firði, Anna Margrét Guðmundsdóttir fagstjóri lækninga, Heilsugæslunni Sólvangi og Guðrún Gunnarsdóttir svæðisstjóri og fagstjóri lækninga, Heilsugæslunni Firði.

Myndin er fengin af vef Fjarðarpóstsins þar sem eru fleiri myndir frá opna húsinu.