Góð aðsókn á Bangsaspítalann

Mynd af frétt Góð aðsókn á Bangsaspítalann
23.09.2019

Bangsaspítalinn var opinn sunnudaginn 22. september, frá kl. 10 til 16. 

Börnum var boðið að koma í heimsókn með veika eða slasaða bangsa. Þegar á heilsugæsluna var komið fékk barnið að innrita bangsann og svo kom bangsalæknir og vísaði barninu og bangsanum inn á læknastofu. Þar skoðaði læknirinn bangsann, ræddi við barnið  og veitti bangsanum viðeigandi aðhlynningu.

Á Heilsugæsluna Sólvangi komu alls 224 börn með veika og slasaða bangsa, önnur mjúk dýr og dúkkur. Heilsufarið hefur því greinilega ekki verið gott hjá þessum hópi undanfarið. Það stendur þó vonandi til bóta eftir heimsóknina á bangsaspítalann. Að minnsta kosti var notað nóg af plástrum. 

Lýðheilsufélag læknanema stendur fyrir Bangsaspítalanum. Tilgangur verkefnisins er tvíþættur: Annars vegar til að fyrirbyggja hræðslu hjá börnum við lækna og heilbrigðisstarfsfólk og hins vegar að gefa læknanemum á yngri árum tækifæri til að æfa samskipti við börn og aðstandendur.

Á meðfylgjandi myndum má sjá börn með bangsana sína og flottan hóp læknanema að loknu dagsverki.

Auk Heilsugæslunnar Sólvangi var Bangsaspítalinn haldinn á Heilsugæslunni Efstaleiti og Heilsugæslunni Höfða.