Undirbúningur Geðheilsuteymis HH suður gengur vel

Mynd af frétt Undirbúningur Geðheilsuteymis HH suður gengur vel
19.08.2019
Undirbúningur fyrir opnun Geðheilsuteymis HH suður er í fullum gangi en teymið mun byrja að taka á móti skjólstæðingum í vetur. Teymisstjóri var ráðinn 1. júní sl. 

Geðheilsuteymi HH suður er þriðja Geðheilsuteymi HH. Það mun þjóna íbúum Kópavogs, Garðabæjar og Hafnarfjarðar. Tvö teymi eru nú þegar starfandi. Geðheilsuteymi HH vestur sem er á Skúlagötu sinnir íbúum Reykjavíkur vestan Elliðaáa. Geðheilsuteymi HH austur sem sinnir íbúum Reykjavíkur austan Elliðaáa er nú í Heilsugæslunni Grafarvogi en er að flytja í framtíðarhúsnæði í Stórhöfða innan skamms.

Búið er að ráða inn iðjuþjálfa, fjölskyldufræðing og íþróttafræðing sem eru sameiginlegir starfsmenn teymanna þriggja og vinna þvert á geðheilsuteymin þrjú. Einnig er ráðning hjúkrunarfræðings í Geðheilsuteymi HH suður í ferli. 

Nú er Geðheilsuteymi HH suður að auglýsa eftir fleiri starfsmönnum, sérfræðingi í geðlækningum, sérfræðingi í geðhjúkrun og sálfræðingi.

Nánari upplýsingar eru hér  á vefnum undir Laus störf. Umsóknarfrestur er til 2. september.

Unnið er að því að finna hentugt húsnæði fyrir starfsemina og er það í útboðsferli.

Geðheilsuteymi HH eru fyrir þá sem þurfa meiri og sérhæfðari þjónustu en er veitt á heilsugæslustöðvum. Teymin sinna einstaklingum 18 ára og eldri sem greindir eru með geðsjúkdóma og þurfa á þverfaglegri aðstoð ásamt þéttri eftirfylgd að halda.  Þjónustan er veitt með heimavitjunum og viðtölum í húsnæði geðteymanna.