Meðhöndlun verkja er oft flókið verkefni

Mynd af frétt Meðhöndlun verkja er oft flókið verkefni
13.08.2019

Langvinnir verkir eru stór heilsufarsvandi og algeng ástæða þess að fólk leitar læknisþjónustu innan heilsugæslunnar. Þegar verkir hafa verið til staðar lengur en þrjá mánuði sem eða þegar verkir svara illa meðferð er talað um verkina sem langvinna. Slíkir verkir geta stafað af ýmsum orsökum, verið fylgikvillar ýmissa sjúkdóma eða orsakast af skemmdum á líkamsvef. Oftast er orsökin þekkt en í einstaka tilvikum er skýring þeirra óljós.

Heildræn nálgun

Þegar skemmd hefur orðið á líkamsvefjum er því miður ekki alltaf mögulegt að hafa áhrif á þá skemmd sem þegar er orðin. Orsök langvinnra verkja er auk þess ekki alltaf skýr og því er meðhöndlun þeirra oft á tíðum flókið verkefni. Lyfjameðferð, sjúkraþjálfun og sálfræðimeðferð eru dæmi um meðferðir við langvinnum verkjum. Stuðningur til lífsstílsbreytinga er einnig mikilvægt meðferðarúrræði. Markmið allra þessara meðferðarúrræða er að draga eins og hægt er úr verkjum, efla almenna heilsu og auka lífsgæði.

Besti árangur næst ef meðferð er margþætt og sniðin að persónulegum þörfum hvers og eins. Þýðingarmikið að einstaklingur með langvinna verki fái svigrúm til að þekkja eigin einkenni og stuðning til að tileinka sér hagnýt bjargráð við hæfi. Fyrir einstakling sem lifir með langvinna verki er mikilvægt að upplifa sig hafa stjórn á lífi sínu og tilveru, í stað þess að upplifa aðstæður sínar þannig að verkirnir stjórni lífinu. Það getur tekið tíma að finna meðferðarúrræði sem henta. En með seiglu og góðum stuðningi er það hægt.

Efla heilsu þrátt fyrir verki

Langvinnir verkir geta haft víðtæk áhrif á líf og tilveru fólks. Á sama hátt hefur hegðun, hugarfar og lífstíll mikil áhrif á verkina. Með því að horfa heildrænt á lífið og ígrunda eigin aðstæður má bæta líðan og efla heilsu þrátt fyrir langvinna verki. Hér eru dæmi um lífsstílsþætti sem gagnlegt er að vinna með:

Hreyfing: Hreyfing eykur blóðflæði um allan líkamann. Með auknu blóðflæði eykst súrefnisflutningur sem og flutningur ýmissa góðra boðefna um allan líkamann. Með hreyfingu minnkar stífni vöðva og verkir og eymsli minnka. Hreyfing hefur auk þess jákvæð áhrif á andlega líðan og er gott mótvægi við streitu.

Streitustjórnun: Streita er órjúfanlegur hluti af lífinu. Þegar við upplifum streitu losna ýmiss konar streituhormón út í blóðrásina. Þessi hormón geta haft slæm áhrif á verki sem og líðan. Það er því þýðingarmikið að finna leiðir til að takast á við eða takmarka streitu í lífinu.

Svefn: Algengt er að langvinnir verkir hafi áhrif á gæði svefns, en truflun á svefni getur haft ýmis neikvæð áhrif á líðan okkar s.s. andlegt jafnvægi, skap og virkni. Truflun á svefn getur lækkað verkjaþröskuld og haft letjandi áhrif á getu fólks til að takast á við langvinna verki.

Stuðningur: Stuðningur er þýðingarmikill þáttur í baráttunni við langvinna verki. Gagnlegt er að setja uppbyggileg og góð samskipti í forgang, sinna áhugamálum og rækta sambönd við vini og aðstandendur. Mikilvægt er að geta leitað stuðnings hjá heilbrigðisstarfsfólki, fjölskyldu, vinum og vinnufélögum.

Ef þú ert að glíma við langvinna verki og langar til að bæta líðan þína og efla heilsu, þá hvetjum við þig til að leita til okkar á heilsugæsluna, þar sem starfa hópar fagfólks: heimilislæknar, hjúkrunarfræðingar, sálfræðingar og sjúkraþjálfarar. Öll erum við reiðubúin að styðja þig í vegferð að innihaldsríkara og heilbrigðara lífi.

Á vefnum Heilsuvera.is má einnig finna nánari upplýsingar um langvinna verki.

Svava Björk Jónasdóttir hjúkrunarfræðingur Heilsugæslunni Árbæ

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu