Nýr svæðisstjóri í Heilsugæslunni Miðbæ

Mynd af frétt Nýr svæðisstjóri í Heilsugæslunni Miðbæ
08.08.2019

Hörður Björnsson, sérfræðingur í heimilislækningum, hefur verið ráðinn sem svæðisstjóri og fagstjóri lækninga í Heilsugæslunni Miðbæ frá 1. júlí 2019 til 5 ára. 

Hörður lauk embættisprófi í læknisfræði 1983 frá University of Edinburgh og lauk námi sem sérfræðingur í heimilislækningum í Svíþjóð 1990. Hann tók sérfræðipróf Félags Heimilislækna í Svíþjóð 1993 og er með sérfræðileyfi í heimilislækningum hér á landi, í Svíþjóð og Noregi. 

Hörður hefur allan sinn starfsferil tekið virkan þátt í kennslu og handleiðslu, bæði læknanema, kandídata og námslækna, og hefur verið aðjúnkt í heimilislækningum við Læknadeild HÍ frá 2000. 

Hann hefur unnið og vinnur enn ötullega að gæðamálum, m.a. sem formaður vinnuhóps landlæknis um klínískar leiðbeiningar fyrir sykursýki af tegund 2 í tvígang. Hann var einnig í vinnuhóp um verklagsleiðbeiningar um umönnun sykursjúkra af tegund 2 í heilsugæslu, sem birtust 2016 á vef HH. Nú er hann í vinnuhóp á vegum Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu um endurnýjun þessarra leiðbeininga. Hörður skipulagði og kom af stað fyrstu þverfaglegu móttökunum fyrir sykursjúka af tegund 2 í Heilsugæslunum Hvammi og Hamraborg árið 2002. 

Frá 1. apríl 2019 hefur Hörður leyst af sem svæðisstjóri og fagstjóri lækninga við Heilsugæsluna Miðbæ. Hann hefur töluverða reynslu af stjórnun, m.a. sem staðgengill yfirlæknis vel á 3ja ár.

Við bjóðum Hörð velkominn til áframhaldandi starfa hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.