Teymisstjóri Geðheilsuteymis HH suður

Mynd af frétt Teymisstjóri Geðheilsuteymis HH suður
27.06.2019

Nú er verið að setja á laggirnar þriðja geðheilsuteymi HH sem er Geðheilsuteymi HH suður. Það mun sinna íbúum Kópavogs, Garðabæjar og Hafnafjarðar.

Tvö teymi eru nú þegar starfandi, Geðheilsuteymi HH austur sem staðsett er í Grafarvogi og  sinnir íbúum Reykjavíkur austan Elliðaáa og Geðheilsuteymi HH vestur sem er á Skúlagötu en það teymi sinnir íbúum Reykjavíkur vestan Elliðaáa. 

Íris Dögg Harðardóttir félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur hefur verið ráðin sem teymisstjóri Geðheilsuteymis HH suður frá 1.júní 2019. Unnið er að því að finna húsnæði sem hentar starfseminni og ráða inn starfsfólk. 

Íris lauk BS gráðu í félagsráðgjöf árið 2011 frá University College Lillabælt í Danmörku og námi til starfsréttinda í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands árið 2012. Samhliða námi í Danmörku starfaði hún við heimahjúkrun fyrir einstaklinga með geðraskanir auk þess sem hún tók starfsnám við sjúkrahúsið í Odense á deild fyrir ungt fólk nýgreint með geðrofssjúkdóm. 

Lengst af hefur Íris starfað á Landspítala fyrst sem félagsráðgjafi á móttökudeild 33c samhliða afleysingum á bráðageðdeild 32c. Frá 2013 hefur Íris Dögg starfað sem félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur á Barna og unglingageðdeild (BUGL). Á BUGL hefur hún komið að þróun meðferðarúrræða, sinnt málastjórn auk meðferðarvinnu í einstaklings- fjölskyldu og hópmeðferð.

Íris hefur í gegnum störf sín öðlast þekkingu á ólíkum meðferðarformum innan geðheilbrigðiskerfisins. Hún lauk námi í Díaletískri atferlismeðferð (Dialetic behavior therapy- DBT)  í USA árið 2015. Auk þess hefur hún hlotið grunn og framhaldsþjálfun í tengslamiðaðri fjölskyldumeðferð (Attachment based family therapy). Árið 2018 lauk hún fjögurra missera diplómanámi á meistarastigi í fjölskyldumeðferð frá Endurmenntun Háskóla Íslands.

Við bjóðum Írisi velkomna til starfa hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.