Skjólstæðingar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins nýta rafræna þjónustu í auknum mæli

Mynd af frétt Skjólstæðingar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins nýta rafræna þjónustu í auknum mæli
24.05.2019

Vefurinn Heilsuvera hefur haft merkjanleg áhrif á samskipti og heimsóknir á heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu síðustu árin. Frá því vefurinn var tekinn í notkun árið 2014 hefur notkun hans farið sívaxandi og á árið 2018 voru liðlega 65 þúsund erindi afgreidd í gegnum Heilsuveru og rafrænum fyrirspurnum til heilsugæslunnar fjölgaði um hátt í 17 þúsund milli áranna 2017 og 2018. Á sama tíma fækkaði hefðbundnum viðtölum á heilsugæslustöðvum um liðlega 3500 milli áranna 2017 og 2018 og símtölum fækkað um hátt í 24 þúsund. Eða úr 384.566 árið 2017 í 360.802 árið 2018. Þetta er meðal þess sem fjallað verður um á ársfundi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem haldinn verður næst komandi þriðjudag 28.maí.

Heilsuvera er samstarfsverkefni Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Landlæknisembættisins og hugbúnaðarfyrirtækisins TM Software. Í gegnum Heilsuveru geta íbúar nálgast heilbrigðisupplýsingar um sjálfa sig úr miðlægum gagnagrunni allra heilbrigðisstofnana óháð því á hvaða heilbrigðisstofnun, heilsugæslustöð eða læknastofu þær eru skráðar. Sívaxandi fjöldi íbúa á höfuðborgarsvæðinu nýtir sér þessa leið til að geta á skjótan og öruggan hátt fengið yfirsýn yfir lyfjanotkun sína, sótt rafrænt um endurnýjun lyfseðla, fylgst með stöðu lyfseðla í lyfseðlagátt, séð ofnæmi sem hefur verið skráð í sjúkraskrá og bólusetningar sem viðkomandi hefur fengið og bókað tíma á heilsugæslustöð. 

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, sem er næst stærsta heilbrigðisstofnun landsins, rekur 15 heilsugæslustöðvar með 700 starfsmönnum og þjónar 176 þúsund íbúum. Þjónusta heilsugæslunnar hefur verið í stöðugri þróun undanfarin ár og er vefurinn Heilsuvera meðal annars afrakstur þeirrar vinnu. Lögð hefur verið áhersla á aukna teymisvinnu þvert á fagstéttar og að auðvelda aðgengi íbúa að heilsugæslustöðvunum sem fyrsta viðkomustað þeirra sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda.