Sigríður Dóra ráðin framkvæmdastjóri lækninga

Mynd af frétt Sigríður Dóra ráðin framkvæmdastjóri lækninga
10.05.2019

Sigríður Dóra Magnúsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins til næstu fimm ára.

Hún er sérfræðingur í heimilislækningum og lauk diplómanámi í opinberri stjórnsýslu fyrir stjórnendur í heilbrigðisþjónustu frá Háskóla Íslands árið 2011.

Sigríður Dóra hefur meira en aldarfjórðungs reynslu sem sérfræðingur í heimilislækningum og áratuga reynslu sem stjórnandi í heimilislækningum. Hún var yfirlæknir Heilsugæslunnar Seltjarnarnesi í 9 ár, yfirlæknir Heilsugæslunnar Miðbæ og síðar svæðisstjóri á sömu stöð í rúm 10 ár. 

Einnig hefur Sigríður Dóra sinnt kennslu sem Aðjúnkt við læknadeild HÍ í samskiptafræði frá árinu 2011 ásamt stundakennslu og handleiðslu læknanema og námslækna í aldarfjórðung. Undanfarin tvö ár hefur hún að auki sinnt sérstakri handleiðslu sérnámslækna. 

Þá hefur hún gegnt ýmsum félags- og trúnaðarstörfum, m.a. í Læknafélagi Reykjavíkur, Félagi íslenskra heimilislækna og Félagi yfirlækna á heilsugæslustöðvum.

Frá því í janúar hefur Sigríður Dóra verið settur framkvæmdastjóra lækninga en er ráðin formlega frá 15. maí.

Við bjóðum Sigríði Dóru velkomna til áframhaldandi starfa hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.