Sárar stungur og skordýrabit

Mynd af frétt Sárar stungur og skordýrabit
29.04.2019

Nú þegar náttúran vaknar af vetrardvala sínum fara skordýrin á stjá. Stungur og bit þeirra geta verið óskemmtileg og valdið óþægindum og í sumum tilvikum alvarlegum sjúkdómum. Því er gott að þekkja helstu leiðir til að koma í veg fyrir að verða bitinn eða stunginn. 

Fá skordýr á Íslandi bera með sér hættulega sjúkdóma en þó er skógarmítill búinn að taka sér bólfestu hér á landi og hann getur borið með sér Lyme-sjúkdóminn sem er alvarlegur sjúkdómur. 

Erlendis er hins vegar meiri hætta á að smitast af alvarlegum sjúkdómum með skordýrabiti. Ef ætlunin er að fara til útlanda er því gott að undirbúa ferðina vel og kynna sér hvort búast má við skordýrabiti á þeim stöðum sem ferðinni er heitið á. 

Skordýr eru mörg og bíta við ólíkar aðstæður. Mikilvægt er að kynna sér vel hvaða dýr eru líklegust til að bíta þar sem þú ert. Oft þarf að beita mismunandi aðferðum við ólíkar tegundir. Þau skordýr sem við þekkjum best hér á landi bíta úti, nema lúsmýið, það bítur inni og helst á nóttunni. Það þarf því að koma í veg fyrir að það komist inn og verja sig að nóttu til.

Hér eru nokkur ráð sem gagnast í baráttunni gegn skordýrabiti. 

 • Haltu ró þinni í nálægð við geitunga og býflugur. Færðu þig rólega frá þeim og forðastu að slá eða sveifla höndum í átt til þeirra. 
 • Hyldu bera húð með löngum ermum og síðbuxum. 
 • Vertu í skóm utandyra. 
 • Berðu skordýravörn á bera húð – skordýravörn sem inniheldur 50% DEET (diethyltoluamide) er áhrifaríkust. Fyrir börn má skordýravörn ekki innihalda meira en 10% af DEET. 
 • Sum skordýr bíta í gegnum þunn föt þar sem þau liggja þétt að líkamanum. Gott er að spreyja skordýrafælu á fötin í þannig tilvikum. 
 • Forðastu að nota ilmsterkar vörur eins og svitalyktareyði og sápur með sterkri lykt sem geta laðað til sín skordýr. 
 • Fylgstu með ferðum geitunga. Ef þú hefur grun um að geitungabú geti leynst í nágrenninu gættu þá sérstakrar varúðar. Bú í görðum og húsum ætti að fjarlægja, sér í lagi þar sem börn leika sér. Best er að fá kunnáttufólk í það verk. 
 • Farðu varlega í kringum blóm og runna í blóma, rusl, polla, rotmassa og útisvæði þar sem matar er neytt þar sem skordýr sækja gjarnan þangað. 
 • Geymdu mat og drykk í lokuðum ílátum utandyra. Geitungar og býflugur geta farið ofan í opnar dósir og flöskur.
 • Lokaðu gluggum á húsum og bílum til að varna því að skordýr komist inn. 
 • Þéttriðið flugnanet í glugga getur komið sér vel í baráttunni gegn lúsmýi. Það leitar inn að nóttu til og bítur inni. 

Ef skordýrin ná samt sem áður að bíta getur þú fundið góð ráð inni á heilsuvera.is eða haft samband við heilsugæsluna þína ef þörf er á.

Margrét Héðinsdóttir, hjúkrunarfræðingur og vefstjóri hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu