Gagnlegt að mæla blóðþrýstinginn

Mynd af frétt Gagnlegt að mæla blóðþrýstinginn
23.04.2019

Á þinni eigin heimasíðu um heilsufar þitt www.heilsuvera.is getur þú lesið um margt sem tengist heilsufari. Þar er til dæmis farið yfir áhættuna af því að hafa háan blóðþrýsting. Hér eru upplýsingar sem eru mikilvægar og hægt er að lesa um þar.

Háþrýstingur er oftast einkennalaus

Blóðið rennur í æðum okkar og er ætlað að vera þar til að flytja næringarefni eins og til dæmis súrefni milli staða. Til þess að það gangi vel og eðlilega þarf að vera eðlilegt samspil á milli magns vökva og efna í æðum, hreyfanleika æðakerfis og hraða hjartsláttar. Ef blóðþrýstingurinn er of hár eykur það líkur á að æðakerfið gefi sig og afleiðingin verður sjúkdómur í til dæmis hjarta, heila, augum og nýrum. Ef blóðþrýstingur er mjög hár til langs tíma getur það minnkað lífslíkur verulega og skert þar að auki lífsgæðin til dæmis með heilablæðingu. Það er alveg ljóst að ef þrýstingur inni í æðum er mikill getur æðin eða rörið gefið sig eða smám saman skemmst með tilheyrandi áföllum.

Margir aðrir þættir geta veikt æðakerfið og dæmi um það eru reykingar, ættlægur veikleiki og há blóðfita. Verst er síðan ef margir áhættuþættir hjarta og æðasjúkdóma eru til staðar í einum og sama einstaklingi. Það er því ein gagnlegasta aðgerð sem hægt er að gera til að fyrirbyggja sjúkdóma að mæla blóðþrýstinginn og bregðast við óeðlilegum niðurstöðum.

Gildin eru mismunandi

Tvær tölur eru notaðar til að skýra blóðþrýsting, til dæmis 140/90. Hærri talan segir til um þrýstinginn í slagæðunum þegar hjartað dregst saman og mikið blóð er í æðunum og þar af leiðandi hár þrýstingur en lægri talan er þrýstingurinn í slagæðunum þegar hjartað er í slökun og lítið blóð í æðum líkamans.

Eðlilegur á blóðþrýstingur fólks í efra gildi að vera 119 eða lægri og í neðra gildi 79 og þaðan af minni. Hækkaður blóðþrýstingur í efra gildi er 120-139 og 80-89 í því lægri.
Þegar um háþrýsting er að ræða eru efri gildi 140 eða hærri og í neðra gildi 90 eða meira.

Þessi gildi eru þó mismunandi og ekki alveg óumdeild og ekki óeðlilegt að hafa viðmiðunargildi eftir því hvaða aðrir áhættuþættir hrjá fólk. Dæmi er að ef það er sterk ættarsaga um kransæðasjúkdóm, til dæmis faðir reykti ekki og fékk kransæðastíflu 36 ára og kólesterólið hefur alltaf verið hátt hjá þér er rétt að gera kröfur um að þrýstingur sé í lægri kantinum. Þá er til dæmis við þessa ættarsögu afar óheppilegt að reykja eins og gefur að skilja.

Þú getur mælt þrýstinginn heima en blóðþrýstingsmæla má kaupa í apótekum og heilsuvörubúðum.

 • Sestu niður og hvíldu þig í 5 mínútur áður en mæling hefst.
 • Gættu þess að það séu í það minnsta 30 mínútur liðnar frá síðustu máltíð, æfingu, baði, reykingum eða áfengisneyslu.
 • Fylgdu leiðbeiningum mælisins um staðsetningu mælisins á hendinni og mældu.
 • Skráðu mælinguna.
 • Mældu síðan blóðþrýstinginn reglulega, ávallt á sama tíma dags.
 • Skráðu hjá þér mælingarnar þínar og komdu með þær í næstu heimsókn á heilsugæsluna.

Hvað er til ráða?

Hvað get ég gert ef þrýstingurinn er hár? Þú getur haft áhrif á blóðþrýstinginn þinn með því að:

 • Létta þig - ef þú ert í yfirvigt. Það er erfitt að dæla blóði út í líkama sem er mjög stór. Sýnt hefur verið fram á gagnsemi þess ef líkamsþyngdarstuðull er hærri en 30 (þyngd/hæð í öðru veldi).
 • Velja fituminni fæðu og meira af grænmeti og ávöxtum.
 • Minnka saltneyslu. Þetta er afar mikilvægur þáttur.
 • Hreyfa þig 30 mín á dag, flesta daga. Hreyfing bætir andlega og líkamlega heilsu.
 • Minnka áfengisdrykkju (ef þú drekkur meira en 2 glös á dag).
 • Gott ráð er að fá sér blóðþrýstingsmæli til að fylgjast með blóðþrýstingnum heima. Ef þú fylgist reglulega með eigin blóðþrýstingi gengur betur að hafa áhrif á hann til lækkunar.

Hafðu eftirfarandi í huga

Hafðu samband fljótlega við heilsugæsluna ef reglulegar blóðþrýstingsmælingar þínar eru yfir 140/90.

Hafðu samband strax við heilsugæsluna ef blóðþrýstingsmælingar þínar eru í kringum 180/120. Sama skaltu gera ef blóðþrýstingsmælingar þínar eru yfir 140/90 og þú finnur fyrir eftirfarandi einkennum, en þau eru merki um að æðakerfið hafi með einhverjum hætti gefið sig og því mikilvægt að grípa inn í og bregðast við strax

 • Sjóntruflanir
 • Höfuðverkur á morgnana
 • Ógleði, uppköst
 • Sljóleiki eða skert meðvitund
 • Erfiðleikar með tal
 • Erfiðleikar með öndun
 • Verkir í brjósti eða brjóstbaki
 • Brúnt eða blóðugt þvag

Munum að góð heilsa er gulli betri og að fylgjast með blóðþrýstingi er einföld og góð leið til að fyrirbyggja heilsuvanda.

Óskar Reykdalsson forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu