Styrkir til gæðaverkefna í heilbrigðisþjónustu

Mynd af frétt Styrkir til gæðaverkefna í heilbrigðisþjónustu
25.03.2019

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra veitti síðastliðinn fimmtudag, rúmar tvær milljónir króna í styrki til fimm gæðaverkefna í heilbrigðisþjónustu.

Markmiðið með styrkjunum er að stuðla að umbótastarfi, nýbreytni og auknum gæðum heilbrigðisþjónustunnar, en ekki síður að veita hvatningu og viðurkenningu því fólki sem leggur metnað sinn í að móta og vinna að verkefnum í þessu skyni. Að þessu sinni var auglýst eftir verkefnum sem hafa að markmiði að bæta skipulag og stuðla að samfelldari og betur samræmdri þjónustu við sjúklinga og bárust ráðuneytinu 44 umsóknir um styrki til fjölbreyttra verkefna.

Gæðastyrkir hafa verið veittir árlega frá árinu 2001 og hafa verkefni á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) nokkrum sinnum fengið styrk.

Eitt verkefni á vegum HH fékk styrk að þessu sinni. Það er verkefni sem lýtur að samfelldri þjónustu heimahjúkrunar, heilsugæslunnar og Landspítalans. Mótað verður og innleitt verklag með þetta að markmiði. Leitast verður við að skýra og einfalda verkferla og bæta upplýsingaflæði og nýta meðal annars upplýsingatækni og nýjungar í sjúkraskrá. Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar er ábyrgðarmaður verkefnisins en Sigrún K. Barkardóttir svæðisstjóri Heimahjúkrunar HH veitti styrknum viðtöku ásamt settum forstjóra HH Óskari Reykdalssyni.

Tilgangur og markmið verkefnisins er að skjólstæðingar heimahjúkrunar á höfuðborgarsvæðinu njóti samfelldrar þjónustu í mismunandi þjónustueiningum heilbrigðiskerfisins. Að móta og innleiða verklag sem tekur tillit til flæðis skjólstæðinga milli heimahjúkrunar, heilsugæslu og Landspítala. Verklagið skal taka mið af mismunandi markhópum, þjónustuþörf, upplýsingaflæði og samskiptum milli þjónustueininga og við skjólstæðinginn. Velferð skjólstæðingsins er höfð að leiðarljósi og horft verður á ferilinn milli þjónustueininga frá sjónarhóli hans. Verkefnið gengur út á að skilgreina skipulag, samfellu og samræmingu þjónustu milli þriggja þjónustueininga í heilbrigðiskerfinu. Leitast verður m.a. við að einfalda og skýra verkferla og upplýsingaflæði milli eininga. Allir aðilar þessara þriggja þjónustueininga koma að gerð verklagsins og innleiðingu þess, auk þess sem upplýsingatækni og nýjungar í sjúkraskrá koma við sögu. 

HH tengist einnig gæðaverkefni sem Landspítalinn hlaut styrk til. Það er verkefni um aukna samvinnu heilsugæslulækna og þvagfæraskurðlækna varðandi verklag og tilvísanir sjúklinga með þvagfærasjúkdóma.

Markmið verkefnisins er að gera þjónustu við þennan sjúklingahóp skilvirkari en einkenni frá þvagfærum eru algeng ástæða fyrir komum í heilsugæsluna. Ef vel gengur gæti verkefnið orði fyrirmynd vegna annarra sérgreina segir í verkefnislýsingu. Tengiliður HH vegna þess verkefnis er Jón Steinar Jónsson heimilislæknir á Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu.

Nánari upplýsingar um gæðaverkefnin eru á vef Stjórnarráðsins

Á myndinni eru styrkþegar ásamt ráðherra.

Við hjá HH þökkum fyrir styrkinn og óskum öllum starfsmönnum sem tengjast verkefninu og öðrum styrkþegum til hamingju.

Myndin er fengin með góðfúslegu leyfi af vef Stjórnarráðsins.