Bólusetningaátak helgarinnar gekk vel

Mynd af frétt Bólusetningaátak helgarinnar gekk vel
11.03.2019

Mislingabólusetningar gengu mjög vel um helgina. Hátt í 3.000 skammtar af bóluefni voru notaðir á heilsugæslustöðvum síðustu fimm daga.

Bólusetningaátakið var skipulagt innan við klukkutíma eftir að fyrirmæli bárust frá Sóttvarnalækni á föstudaginn.

Allar nítján heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu voru virkjaðar og þær höfðu opið þrjá tíma á laugardaginn og þrjá tíma á sunnudaginn. Á hverri stöð stóðu fjórir til fimm starfsmenn vaktina hvorn daginn; hjúkrunarfræðingar, læknar og móttökuritarar. 

Það er merki um styrk heilsugæslunnar og starfsmanna hennar að hægt sé að fara af stað með aðgerð af þessari stærðargráðu nánast fyrirvaralaust og við erum ákaflega ánægð með okkar fólk.

Álagið var mest í upphafi hvorrar vaktar en róaðist þegar á leið. Allt gekk vel og eiga börn og foreldrar og aðrir sem komu í bólusetningu hrós skilið. 

Mjög margir, hátt í 300, höfðu samband við netspjall Heilsuveru um helgina og mikið var hringt í upplýsingasímann 1700. Metumferð var á upplýsingasíðum Heilsuveru, á fréttasíðum hér vef HH og á .

Nú er áherslan á að halda áfram að bólusetja börn í ungbarnaverndinni og börn 6- 18 mánaða. 

Fullorðnum sem hafa ekki fengið mislinga og eru óbólusettir er ráðlagt að bíða þangað til meira bóluefni berst. Ekkert nýtt mislingasmit hefur verið staðfest síðustu daga og það verða gefin fyrirmæli um framhaldið.