Komugjöld í heilsugæslu felld niður hjá öryrkjum og öldruðum

Mynd af frétt Komugjöld í heilsugæslu felld niður hjá öryrkjum og öldruðum
21.12.2018
Hætt verður að innheimta komugjöld af öryrkjum og öldruðum í heilsugæslu og hjá heimilislæknum frá 1. janúar næstkomandi, samkvæmt ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. Gildir það jafnt hvort sem um er að ræða komu á dagvinnutíma eða á öðrum tímum sólarhringsins. Gjald fyrir vitjanir lækna til aldraðra og öryrkja verður einnig fellt niður. Líkt og áður eru ekki innheimt komugjöld hjá börnum að 18 ára aldri.
 
Þetta er liður í stefnu stjórnvalda um að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga vegna heilbrigðisþjónustu og auka á móti framlög hins opinbera. Þetta er einnig í samræmi við þá áherslu að efla hlutverk heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar fólks í heilbrigðiskerfinu.

Þak var sett á heildarútgjöld sjúklinga og ýmsar aðrar breytingar gerðar varðandi greiðsluþátttöku fólks fyrir heilbrigðisþjónustu með nýju greiðsluþátttökukerfi árið 2017.

Komugjöld almennra notenda í heilsugæslunni verða óbreytt að krónutölu á nýju ári og taka því ekki hækkunum í samræmi við breyttar verðlagsforsendur.