Pistill forstjóra - október 2018

Mynd af frétt Pistill forstjóra - október 2018
26.10.2018

Starfsfólk Þróunarmiðstöðvar heilsugæslunnar hefur komið sér fyrir á þriðju hæðinni á Álfabakka 16, en þar mun miðstöðin hafa aðsetur sitt. Húsnæði Þróunarmiðstöðvarinnar var allt gert upp í sumar og byrjun hausts og vonandi að vel fari um starfsfólkið. Nú er unnið að því að fjölga í starfsliði miðstöðvarinnar í samræmi við áætlanir þar um og vonandi styttist í skipun fagráðsins. Ég skynja mikinn metnað og tilhlökkun hjá starfsfólkinu og það verður gaman að fá að fylgjast með starfi þeirra á næstu mánuðum. Við óskum þeim öllum góðs gengis í sínum metnaðarfullu störfum.      

Heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir heimsótti HH í liðinni viku og var sérstaklega gaman að taka á móti ráðherra í húsakynnum Þróunarmiðstöðvar heilsugæslunnar. Eins og fram hefur komið kynnti ráðherra í heimsókn sinni þá ákvörðun sína að veita HH 57 m.kr. fjárveitingu til að fjölga sérnámsstöðum um fimm. Það er ánægjulegt að orðið hafi verið við beiðni HH um fjölgun sérnámsstaða, en til frambúðar er sjálfsagt engin ein aðgerð betri en þessi til eflingar læknisþjónustu innan heilsugæslunnar. 

Við hjá HH sjáum að fjölgun í sérnámi í heimilislækningum hefur haft jákvæð áhrif. Á 15 heilsugæslustöðvum HH starfa nú samtals 109 sérfræðingar í heimilislækningum í 93,2 stöðum. Alls eru 14 stöður setnar sérfræðingum á aldrinum 34-39 ára, 17,9 stöður setnar sérfræðingum á aldrinum 40-49 ára, 29,7 stöður setnar sérfræðingum á aldrinum 50-59 ára, 26,1 staða setin sérfræðingum á aldrinum 60-69 ára og loks eru 5,5 staða setin af sérfræðingum eldri en 70 ára. Þess má geta að 8 sérfræðingar í 7,5 stöðum fóru frá HH á aðra af nýju einkareknu heilsugæslustöðvunum  á árinu 2017. 

Til samanburðar voru 93 sérfræðingar starfandi á heilsugæslustöðvum HH á haustmánuðum 2009 í samtals 89,7 stöðum. Alls var þá 0,9 staða setin sérfræðingi  á aldrinum 34-39 ára, 34,65 stöður setnar sérfræðingum á aldrinum 40-49 ára, 33,22 stöður setnar sérfræðingum á aldrinum 50-59 ára og 20,9 staða setin sérfræðingum á aldrinum 60-69 ára.  

Sérfræðingar í heimilislækningum eru talsvert fleiri nú en á árinu 2009, 109 á móti 93, en mun fleiri eru í hlutastarfi en þá og þá var sömuleiðis enginn starfandi sérfræðingur eldri en 70 ára. Það eru fleiri í elsta aldurshópnum núna og nýliðunin er mest í yngsta hópnum, sem bendir til þess að nýútskrifaðir sérfræðingar skili sér í starfa hér á landi að loknu sérnámi.  

Á skrifstofu HH hefur á undanförnum mánuðum verið unnið að því að einfalda og straumlínulaga ferla í þeim tilgangi að bæta þjónustu við starfsstöðvar HH, auðvelda starfsfólki vinnuna og draga úr sóun. Undirritun ráðningasamninga er einn af þeim ferlum sem nú hefur verið endurskoðaður og eru nú flest allir nýir ráðningarsamningar undirritaðir rafrænt. Þessi breyting ein leiðir til mikils vinnusparnaðar og hraðar til muna afgreiðslu samninganna.   

Um þessar mundir er verið að ganga frá samningi um leigu á nýju húsnæði fyrir Heilsugæslu Mosfellsumdæmis. Áformað er að nýja húsnæðið verði tilbúið sumarið 2020, en undirbúningur að byggingu þess er nú þegar hafinn. Þetta er í senn bæði gleðilegur og mikilvægur áfangi í sögu Heilsugæslu Mosfellsumdæmis sem býr við þröngan kost í dag.  

Gangi okkur öllum vel í dagsins önn. 
    
Svanhvít Jakobsdóttir 
Ábyrgð – Fagmennska – Traust – Þjónusta – Framþróun