Pistill forstjóra - júní 2018

Mynd af frétt Pistill forstjóra - júní 2018
26.06.2018

Það er í senn áhugavert og lærdómsríkt að fylgjast með ýmsum þeim mælikvörðum sem nýtt fjármögnunarlíkan færir okkur. Til að mynda hefur í heildina verið lítil hreyfing á skjólstæðingum HH, en þeim hefur fjölgað um 29 frá síðustu áramótum. Fækkun skjólstæðinga er aðallega hjá Heilsugæslunni Grafarvogi, en mest er fjölgun skjólstæðinga hjá heilsugæslustöðvunum í Hlíðum og Miðbæ. Meðaltals hlutdeild (komur skjólstæðinga á sína heilsugæslustöð reiknaðar sem hlutfall af komum þeirra til allra veitenda heilbrigðisþjónustu sem taldir eru með) á fyrstu fimm mánuðum þessa árs hækkar lítillega samanborið við sama tímabil 2017, eða fer úr 65,6% í 66,9%. Komur til HH á fyrstu fimm mánuðum ársins eru 3.224 fleiri samanborið við fyrstu fimm mánuði ársins 2017. 

Síðasta ár var aðlögunarár heilsugæslustöðva að nýju fjármögnunarkerfi. Reikniverkið á bak við útdeilingu fjármagnsins er mjög flókið og  því tók aðlögunin verulega á alla starfsmenn þar sem hún náði inn á flesta þætti starfseminnar. Rauntölur fyrstu mánaða þessa árs sýna að allflestar stöðvarnar hafa náð að aðlaga rekstur sinn að nýja reiknilíkaninu og er það vel. 

Með tilkomu nýrra heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu eykst eðlilega samkeppnin um heilbrigðisstarfsfólk. Ef rýnt er í ársverkatölur HH sést að aukning er á ársverkum hjá öllum hópum heilbrigðisstarfsfólks milli áranna 2016 og 2017, þ.e.a.s. hjá hjúkrunarfræðingum, ljósmæðrum, sálfræðingum, sjúkraþjálfurum, sjúkraliðum, en einnig lítillega hjá læknum þrátt fyrir að átta læknar hafi hafið störf á árinu 2017 hjá annarri af nýju heilsugæslustöðvunum. Ársverkum hjá HH fjölgar í heildina um 18 milli áranna 2016 og 2017.      

HH og Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga skrifuðu undir nýjan stofnanasamning á dögunum, en samningurinn tekur við af stofnanasamningi frá árinu 2013. Markmið hins nýja stofnanasamnings er m.a. að þróa og útfæra skilvirkt launakerfi sem taki mið af þörfum, verkefnum og markmiðum stofnunar og hvetji til árangurs. Mikilvægi starfa hjúkrunarfræðinga innan heilsugæslunnar er óumdeilt. Öflugur hópur hjúkrunarfræðinga innan HH sinnir bæði fjölþættum verkefnum og mikilvægu forvarnarstarfi, vaktþjónustu, heimahjúkrun, auk þess að sinna ýmissi fræðslu og ráðgjöf. Þáttur þeirra í uppbyggingu og eflingu teymisvinnu er og gríðarlega mikilvægur. Nýundirritaður stofnanasamningur er liður í að bæta starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga innan HH og skref í þá átt að hópurinn njóti verðskuldaðrar viðurkenningar fyrir störf sín. 

Þótt lítt sjáist til sólar er sumarleyfistíminn hafinn. Það verða óhjákvæmilega færri á vaktinni í sumar, en starfsfólk HH mun eftir sem áður sinna öllum erindum af kostgæfni. Við tökum vel á móti sumarstarfsfólki og bjóðum það velkomið. Annars starfsfólks bíður langþráð sumarfrí eftir erilsaman vetur.      

Með ósk um gott og gleðiríkt sumarfrí.

Svanhvít Jakobsdóttir 

Ábyrgð – Fagmennska – Traust – Þjónusta – Framþróun