Maí 2018 pistill forstjóra

Mynd af frétt Maí 2018 pistill forstjóra
29.05.2018

Heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, kynnti í mánuðinum þá ákvörðun sína að koma á fót Þróunarmiðstöð heilsugæslu á landsvísu. Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar á landsvísu mun byggja á grunni Þróunarstofu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, en hún mun fá aukið sjálfstæði, víðtækara hlutverk og mun koma til með að leiða faglega þróun allrar heilsugæsluþjónustu í landinu. Auk þess sem hún mun vinna að samræmingu verklags, samhæfingu milli fagfólks, gæðaþróun og framförum í heilsugæslu. Í heildina verða 13 stöður innan Þróunarmiðstöðvar heilsugæslunnar og verður lögð áhersla á breiða fagþekkingu. Þróunarmiðstöðin mun starfa innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og verður starf forstöðumanns auglýst um mánaðarmótin maí/júní. 

Heilbrigðisráðherra mun skipa fagráð Þróunarmiðstöðvar heilsugæslunnar sem starfa mun innan hennar. Í fagráðinu munu sitja fulltrúar frá öllum heilbrigðisstofnunum sem reka heilsugæslustöð sem og einn fulltrúi frá sjálfstætt starfandi heilsugæslustöðvum, heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri og heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands. Forstöðumaður Þróunarmiðstöðvar heilsugæslunnar mun veita fagráðinu forystu. 

Þetta er afar jákvætt skref og ber að fagna þessum áfanga í uppbyggingu heilsugæslunnar og þeim stuðningi sem ráðherra sýnir heilsugæslunni með ákvörðun sinni.

Endurhæfingarteymi Heimahjúkrunar HH í Hafnarfirði, Garðabæ og Kópavogi hefur verið komið á laggirnar. Í teyminu starfa fimm starfsmenn í 50-100% starfi, en teymið samanstendur af iðjuþjálfa, sjúkraþjálfara, hjúkrunarfræðingi, félagsliða og sjúkraliða. Markmiðið með stofnun teymisins er að gera sjúkum og/eða öldruðum kleift að dvelja lengur heima. Veitt verður fyrirbyggjandi þjónusta og markviss þjálfun heima til að vinna að aukinni sjálfshjálpargetu í verkefnum daglegs lífs. Teymið verður í nánu samstarfi við starfsfólk heilsugæslustöðva og sjúkrastofnana, aðila sem koma að málefnum aldraðra og fatlaðra í þessum þremur bæjarfélögum, ættingja og fleiri aðila. Það er ánægjulegt að geta boðið upp á þessa auknu þjónustu og við óskum nýju endurhæfingarteymi velfarnaðar í störfum sínum.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins (HH) og Útlendingastofnun (UTL) hafa undirritað samning um heilbrigðismiðstöð fyrir fólk sem sækir um alþjóðlega vernd á Íslandi. HH og UTL gerðu fyrst samning um þjónustu við hælisleitendur á árinu 2016, en hann hefur nú verið endurskoðaður með hliðsjón af nýlegri reglugerð um útlendinga,  sem kveður á um hvaða heilbrigðisþjónustu eigi að veita.  Samningurinn er liður í hlutverki stjórnvalda við að tryggja heilbrigðisþjónustu við umsækjendur á meðan mál þeirra eru til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum og er Göngudeild sóttvarna og hælisleitenda sem fyrr veitandi þjónustunnar.

Eins og að ofan greinir er mjög margt í gangi innan HH, en hér er aðeins tæpt á fáum verkefnum. 

Gangi okkur öllum vel í okkar daglega starfi. 

Svanhvít Jakobsdóttir 

Ábyrgð – Fagmennska – Traust – Þjónusta – Framþróun