Hreyfiseðlaverkefni kynnt á vettvangi ESB

Mynd af frétt Hreyfiseðlaverkefni kynnt á vettvangi ESB
28.02.2018

Auður Ólafsdóttir sjúkraþjálfari, sem er verkefnastjóri Hreyfiseðla á Þróunarstofu HH, hélt erindi um Hreyfiseðla á vinnustofu nefndar Evrópusambandsins (ESB) sem fjallar um forvarnir og bestu meðferð krónískra sjúkdóma (Steering Group of Promotion and Prevention). Vinnustofan var haldin í Luxemburg þann 8. febrúar.

Meðal verkefna þessarar nefndar er að koma upp gagnabanka með fyrirmyndaraðferðum (best practices), sem væri aðgengilegur fyrir alla innan ESB og vinnustofan var liður í þeirri vinnu.

Búið er að velja sænska verkefnið um hreyfiseðla sem fyrirmyndarverkefni í gagnabankann og það var kynnt á þessari vinnustofu. Í tengslum við þá kynningu var áhugi á að fá erindi frá Íslandi, þar sem fjallað væri um hvernig hefði gengið að aðlaga sænska hreyfiseðilsmódelið að íslensku heilbrigðiskerfi. Það hvernig tekst að færa eitt verkefni yfir til annars lands og innleiða það þar, er einmitt á áhugasviði nefndarinnar. 

Lena Kallings sem er prófessor hjá  Gymnastik- och idrottshögskolan (The Swedish School of Sport and Health Sciences) kynnti sænska módelið, ferlið, árangur, þjálfun starfsmanna og Fyss handbókina. Þetta var fróðlegt erindi  fyrir þá sem ekki þekktu til verkefnisins enda var mikið spurt í lokin. 

Auður sagði síðan frá innleiðingu verkefnisins á Íslandi, hvernig það var aðlagað að heilbrigðiskerfinu, hvað breytingar voru gerðar og hvers vegna. Auður fór einnig yfir tölur, árangur, þróun og nýjungar. Talsverðar umræður voru að erindinu loknu og mikill áhugi á hvernig okkur tókst til og þá einkum rafrænni skráningu á hreyfingu og rafrænni eftirfylgd. Í sjónmáli er frekara samstarf við aðrar smáþjóðir, svo sem Möltu, en þeim hugnaðist vel okkar aðferð og innleiðing.

Það var mikill heiður að fá tækifæri til að kynna íslensku nálgunina á Hreyfiseðla á vettvangi fyrirmyndarverkefna og ánægjulegt að fá viðurkenningu á að við, í samstarfi við Svía, séum að gera góða hluti á þessu sviði.

Nánari upplýsingar um hreyfiseðla er að finna hér á vefnum.