Kynfræðsla í skólum

Mynd af frétt Kynfræðsla í skólum
14.02.2018

Í ljósi umræðu undanfarinna daga er ánægjulegt að kynna samræmt forvarna- og heilsueflingarstarf sem skólahjúkrunarfræðingar halda úti í öllum grunnskólum landsins.

Skólahjúkrunarfræðingar eru starfsmenn heilsugæslunnar sem eru staðsettir í grunnskólum og vinna samkvæmt Leiðbeiningum um heilsuvernd grunnskólabarna. Í Leiðbeiningunum er m.a. fjallað ítarlega um heilbrigðisfræðslu og hvað eigi að taka fyrir hjá hverjum árgangi.

Kynfræðslan, sem er hluti af heilbrigðisfræðslu, byrjar strax í 1. bekk og skólahjúkrunarfræðingar eru svo með fræðsluinnlegg í öllum árgöngum sem koma inn á kynfræðslu.

Skipulag kynfræðslu:

  • 1. bekkur – Líkaminn minn (forvarnarfræðsla gegn kynferðislegu ofbeldi) þar sem markmiðið er að börnin viti að þau eiga sinn líkama sjálf, börnin viti að kynferðisleg misnotkun er alltaf röng og aldrei þeirra sök, viti að þau megi segja NEI (æfa það) og viti að þau eigi að segja frá verði þau fyrir óþægilegri reynslu (aldrei að eiga vond leyndarmál). Þessari fræðslu er síðan oft fylgt eftir með myndinni um Leyndarmálið.
  • 2. bekkur –Tilfinningar og líðan – markmiðið að þekkja og geta tjáð sig um tilfinningar sínar og líðan.
  • 4. bekkur – Sjálfsmynd – markmiðið að börnin finni sínar jákvæðu hliðar og skilji mikilvægi þess að bera virðingu hvert fyrir öðru
  • 5. bekkur – Samskipti – markmið að börnin beri virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum, virði skoðanir annarra og æfi sig í að setja sig í spor annarra.
  • 6. bekkur – Kynþroskinn – komið m.a. inn á líkamsbreytingar – sjálfsfróun – kynhneigð og kynferðislegt ofbeldi.
  • 7. bekkur – Hugrekki til að standa með sjálfum sér –sjálfsmynd - færni í ákvarðanatöku (hver á að taka ákvörðun fyrir þig? Þú eða einhver annar?)
  • 8. bekkur – Félagsþrýstingur – hvernig þekkjum við hann? Enn og aftur áhersla á sterka sjálfsmynd og að krakkarnir taki sínar ákvarðanir sjálf.
  • 8. bekkur – Líkamsímynd – hvað hefur áhrif á hana? Fögnum fjölbreytileikanum.
  • 9. bekkur – Kynheilbrigði – hvað einkennir góð sambönd – kynhneigð – tilfinningar – MÖRK – Mörk í kynlífi – Væntingar og mörk – Ef farið er yfir mörkin – Kynferðislegt ofbeldi – Kynsjúkdómar og getnaðarvarnir.
  • 10. bekkur – Sambönd – ást, menning og trú – ástarsorg – kynferðislegar hugsanir – Samfarir, hvenær er maður tilbúinn – samfarir, væntingar og mörk – kynhneigð – trans – daður, áreitni, mörk og kynferðisofbeldi – Erótík, klám, list eða dónaskapur – klámvæðing – staðalímyndir.

Við hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins erum afar stolt af fræðslustarfi skólahjúkrunarfræðingana okkar.