Lyfjafræðileg umsjá í heilsugæslu

Mynd af frétt Lyfjafræðileg umsjá í heilsugæslu
09.02.2018

Þann 15. desember síðastliðinn varði Anna Bryndís Blöndal lyfjafræðingur doktorsritgerð sína: Innleiðing lyfjafræðilegrar umsjár í heilsugæslu á Íslandi.

Lyfjafræðileg umsjá er þjónusta sem stuðlar að því að skilgreina markmið lyfjameðferðar fyrir sjúkling og leita bestu leiða til að ná þeim markmiðum og felur það oftast í sér samvinnu milli lyfjafræðings, læknis og sjúklings. Á undanförnum áratugum hafa lyfjafræðingar erlendis verið að útvíkka starfsvið sitt með því að veita lyfjafræðilega umsjá í samstarfi við aðra heilbrigðisstarfsmenn en þó er misjafnt milli landa hversu mikið og útbreitt það er. Jafnframt er þátttaka lyfjafræðinga í grunnþjónustu heilbrigðiskerfisins mjög ólík á milli landa. Slík þróun hefur ekki átt sér stað hér á landi þar sem lyfjafræðileg umsjá er nánast einungis veitt innan veggja spítalans en ekki í grunnþjónustu heilbrigðiskerfisins, líkt og í heilsugæslu eða apótekum.

Þegar kemur að þróun á þjónustu lyfjafræðilegrar umsjár þarf að taka tillit til ólíkra þátta svo sem menningar, hefða og viðhorfa í hverju landi fyrir sig. Sérsníða þarf þjónustuna að umhverfinu þar sem hún er veitt og má því segja að engin ein forskrift sé fyrir því hvernig auka á þessa þjónustu með því markmiði að bæta lyfjameðferð og þar með lífsgæði sjúklinga.

Doktorsritgerðin byggist á þremur vísindagreinum sem lýsa í fyrsta lagi viðhorfum íslenskra heimilislækna til samstarfs við lyfjafræðinga og í öðru lagi innleiðing og tilraun á lyfjafræðilegri umsjá í heilsugæslu á Íslandi og reynslu af henni.

Tilraunin var gerð í Heilsugæslunni Garðabæ, þar sem Anna Bryndís veitti skjólstæðingum stöðvarinnar, 65 ára og eldri með mörg lyf, lyfjafræðilega umsjá.

Megin niðurstöður ritgerðarinnar eru að íslenskir heimilislæknar virðast ekki meðvitaðir um möguleika á aðkomu lyfjafræðinga að meðferð sjúklinga, þó þeir væru almennt jákvæðir fyrir þróun á samstarfi við lyfjafræðinga sérstaklega hvað varðar meðferð sjúklinga með fjölveikindi og á fjöllyfjameðferð. Í innleiðingu á lyfjafræðilegri umsjá kom skýrt fram mikilvægi þess að heimilislæknar og lyfjafræðingur ynnu hlið við hlið á heilsugæslustöð. Í rannsókninni í Garðabæ gerði lyfjafræðingur að jafnaði tvær athugasemdir við lyfjameðferðina og í flestum tilvikum sögðu heimilislæknar að þeir myndu taka þær til greina. Algengasta athugasemdin var um lélega meðferðarheldni, næst um aukaverkun og þriðja algengasta var að ekki fannst ábending fyrir lyfjameðferð. Í þeim flokki var notkun próteinpumpuhemla mest áberandi. 

Heimilislæknar sem tóku þátt í rannsókninni töldu að lyfjafræðingur ætti mikilvægan sess sem hluti af teymi heilsugæslunnar í framtíðinni.

Enskt heiti ritgerðarinnar er Bringing pharmaceutical care to primary care in Iceland.

Andmælendur voru dr. Helga Garðarsdóttir, dósent við Háskólann í Utrecht, og Guðlaug Þórsdóttir, öldrunarlæknir við Landspítala Háskólasjúkrahús.

Umsjónarkennari og aðalleiðbeinandi var dr. Sveinbjörn Gizurarson, prófessor við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, og meðleiðbeinandi var dr. Anna Birna Almarsdóttir, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla. Að auki sátu í doktorsnefnd Aðalsteinn Guðmundsson, lyf- og öldrunarlæknir,  Jón Steinar Jónsson heimilislæknir Heilsugæslunni Efstaleiti áður Heilsugæslunni Garðabæ, og Sofia Kalvemark Sporrong, aðstoðarprófessor við Kaupmannahafnarháskóla.