Nýir svæðisstjórar og fagstjórar

Mynd af frétt Nýir svæðisstjórar og fagstjórar
11.09.2017

Ásmundur Jónasson hefur verið ráðinn tímabundið í starf svæðisstjóra í Heilsugæslunni Garðabæ frá 1. júlí síðastliðnum.

Ásmundur lauk námi frá Læknadeild HÍ 1983 og fékk sérfræðiréttindi í heimilislækningum árið 1990. 

Hann hefur starfað við Heilsugæsluna í Garðabæ frá 1998, nú síðast sem fagstjóri lækninga. Hann starfaði við heilsugæslu Selfoss frá 1991-1998, síðast sem yfirlæknir stöðvarinnar. Áður starfaði hann sem sérfræðingur og síðar yfirlæknir við Heilsugæsluna Surahammar í Svíþjóð.

Ásmundur hefur starfað töluvert að félags- fræðslu og gæðaþróunarmálum, hefur átt sæti í gæðaþróunarnefnd Félags íslenskra heimilislækna og verið stundakennari við læknadeild Háskóla Íslands og aðjúnkt þar frá 2009. Hann var formaður Læknafélags Suðurlands á árunum 1994-1998 og hefur setið í stjórn Læknavaktarinnar frá 2013. Auk þess sat hann í stjórn Félags íslenskra heimilislækna frá 1993-1995 og hefur setið í gæðaþróunarnefnd þess félags til margra ára.

Við bjóðum Ásmund velkominn til nýrra starfa hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Ragnar Logi Magnason hefur verið ráðinn tímabundið í starf svæðisstjóra og fagstjóra lækninga í Grafarvogi.

Ragnar Logi lauk námi frá Læknadeild HÍ 1999 og sérnámi í heimilislækningum árið 2006. 

Hann hefur starfað sem heimilislæknir á heilbrigðisstofnunum bæði í þéttbýli og dreifbýli hér á landi og í Svíþjóð. Hann hefur komið talsvert að fræðslumálum og gæðastjórnun innan heilsugæslu. 

Undanfarin ár hefur hann starfað á Heilsugæslunni Grafarvogi sem heimilislæknir og sem staðgengill fagstjóra lækninga. 

Við bjóðum Ragnar Loga velkominn til nýrra starfa hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Margrét Björnsdóttir hefur verið ráðin í starf fagstjóra hjúkrunar hjá Heilsugæslunni Garðabæ frá og með 14. ágúst síðastliðnum

Margrét er með B.Sc. gráðu í hjúkrun og MS gráðu í heilsuhagfræði frá Háskóla Íslands.

Margrét hefur starfað sem verkefnastjóri daglegs reksturs hjá Rannsóknastofnun í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands. Auk þess sem hún hefur starfað sem rannsakandi, verkefnastjóri í gæðaúttekt og stundakennari við hjúkrunarfræðideild Háskólans og sem hjúkrunarfræðingur á hjartadeild Landspítalans þar sem hún var í endurlífgunarteymi spítalans.

Við bjóðum Margréti velkomna til starfa hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.