Septemberpistill forstjóra

Mynd af frétt Septemberpistill forstjóra
08.09.2017

Sumri hallar og starfsemi Heilsugæslunnar að færast í fastar skorður á ný. Ég vona að starfsfólk hafi notið sumarsins, hafi átt ánægjulegt frí með fjölskyldu og vinum og komi endurnært til baka. Starfsemin hefur gengið vel í sumar, þótt eðli máls samkvæmt reyni meir á hvern og einn þegar færri standa vaktina.   

Okkar bíða fjölmörg krefjandi verkefni á komandi mánuðum. September er upphaf kennsluársins, en HH gegnir mikilvægu kennsluhlutverki. Þriðji sérnámshópurinn í heilsugæsluhjúkrun hóf nám síðsumars. Alls hafa 11 hjúkrunarfræðingar útskrifast úr náminu og eru þeir allir í starfi hjá HH. Hópur sérnámslækna telur nú 40 lækna, þar af eru 26 í starfi hjá HH. Að venju koma síðan vel á annað hundrað nemar af heilbrigðisvísindasviði HÍ til skemmri dvalar, annars vegar úr læknadeild og hins vegar hjúkrunardeild. Þá hófst þjálfun sálfræðinema haustið 2016 og verður framhald á því í vetur. Við bjóðum nýja nema hjartanlega velkomna og munum gera allt okkar til að styðja þau í náminu, svo þau fái að vaxa og eflast og verði í framtíðinni öflugir liðsmenn heilsugæslunnar í landinu.   

Aðlögun að nýju fjármögnunarkerfi heilsugæslustöðva stendur yfir. Fjárveiting til einstakra stöðva er samkvæmt nýja fjármögnunarlíkaninu frábrugðin þeim rekstraráætlunum sem áður giltu um rekstur stöðvanna. Því var fljótlega ljóst að sumar af stöðvum HH yrðu að endurskoða reksturinn og bregðast við lægri fjárveitingu. Ofan á þetta bætist síðan að með fjölgun einkarekinna heilsugæslustöðva hefur skráðum skjólstæðingum á HH stöðvum fækkað. Þessari fækkun fylgir lækkun fjárveitinga í samræmi við forsendur hins nýja fjármögnunarkerfis. Eins og sakir standa  hafa liðlega 6.500 einstaklingar fært sig frá HH á nýju einkareknu stöðvarnar. Hafa ber í huga að þetta er hlutfallslega ekki mikil fækkun skjólstæðinga eða innan við 4%. Varlega áætlað þýðir þessi fækkun skráðra þó um 200 m.kr. tekjulækkun á ársgrundvelli fyrir stöðvar HH. Ljóst má vera að ytra umhverfi stöðvanna er talsvert breytt og mikilvægt að aðlagast fljótt og vel hinu nýja samkeppnisumhverfi. Á þessari stundu eru um 177 þúsund íbúar skráðir á heilsugæslustöðvar HH. Rétt er að ítreka það að þótt einhverjar stöðvar þurfi að draga saman miðað við nýtt fjármögnunarkerfi, þá fá aðrar aukið fjármagn og því á aðlögun að nýja fjármögnunarkerfinu ekki að boða sársaukafullar aðgerðir fyrir starfsfólkið, við erum  630 manna fyrirtæki og alltaf einhver hreyfing í gangi.      

Þjónusta við sjúklinga með sálfélagsleg og geðræn vandamál hefur verið mikið til umfjöllunar undanfarið og brýnt að efla þennan þjónustuþátt innan heilsugæslunnar. Stefnumótun og þróun sálfræðiþjónustu innan HH  hefur gengið framar vonum og er þjónustan orðinn eðlilegur hluti þverfaglegrar samvinnu. Frá hausti 2016 hefur tekist að manna og efla verulega  sálfræðiþjónustu fyrir börn að 18 ára aldri og fjölskyldur þeirra. Þá er einnig í boði sálfræðiþjónusta í mæðra- og ungbarnavernd.
Verið er að vinna að nýrri þunglyndismeðferð fyrir unglinga 13 til 17 ára sem verður innleidd á heilsugæslustöðvum fyrir áramót. Þetta er virknimeðferð (behavioural activation) og hafa sálfræðingar HH fengið þjálfun í meðferðinni frá dr. Lauru Pass sem starfar við Háskólann í Reading í Englandi.  Þá er hafinn undirbúningur  að  innleiðingu kvíðameðferðar fyrir börn 12 ára og yngri eftir áramót.  Meðferðin byggir á bókinni «Overcoming your Child’s Fears and Worries” og er fyrirhugað að breskur sérfræðingur verði með námskeið hjá HH fyrir sálfræðinga á heilsugæslustöðvum. Loks má nefna að auk þessa hafa verið í boði fjölbreytt námskeið fyrir sálfræðinga og annað heilbrigðisstarfsfólk frá hausti 2016.

Þrátt fyrir það góða starf sem unnið er inn HH er ljóst að mönnun sálfræðinga er engan veginn fullnægjandi og brýnt að hraða uppbyggingu þjónustunnar. Þar er mest aðkallandi að efla þjónustu við aldurshópinn 18 ára og eldri.    

Gangi okkur öllum vel í krefjandi verkefnum vetrarins. 

Svanhvít Jakobsdóttir 

Ábyrgð – Fagmennska – Traust – Þjónusta – Framþróun