Vel heppnað en krefjandi verkefni

Mynd af frétt Vel heppnað en krefjandi verkefni
05.07.2017

Í júní síðastliðnum var ár liðið frá því að sameinuð Heimahjúkrun Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi tók formlega til starfa. Markmið sameiningarinnar var að hagræða  og auka sveigjanleika í rekstrinum þannig að hægt væri að koma betur til móts við þarfir þeirra sem njóta þjónustunnar. Sigrún Kristín Barkardóttir svæðisstjóri og Inga Valgerðar Kristinsdóttur verkefnastjóri þróunar og gæða, eru sammála um að sameiningin hafi tekist vel þótt vissulega hafi hún reynt talsvert á starfsfólk sem hafi staðið sig frábærlega á þessum breytingatímum.  Alls njóta um 650 einstaklingar á aldrinum 19  til 105 ára heimahjúkrunar á svæðinu. Markmið þjónustunnar er að gera sjúkum og öldruðum kleift að dveljast heima eins lengi og unnt er miðað við heilsufar og félagslegan aðbúnað þeirra. Sýnt hefur verið fram á að heimahjúkrun sparar samfélaginu mikinn kostnað vegna uppbyggingar nauðsynlegrar stofnanaþjónustu sem annars þyrfti að ráðast í. 

Heimahjúkrun Heilsugæslunnar er þverfagleg þar sem 2 hjúkrunarfræðingar og 3 sjúkraliðar vinna saman í teymi og hefur þessum teymum verið fjölgað úr 8 í 10 eftir sameininguna. Enn skortir þó nokkuð á fengist hafi fjármunir til að fullmanna teymin 10.

Veikari einstaklingar

Á árinu 2016 fóru starfsmenn Heimahjúkrunar í um 114 þúsund vitjanir á svæðinu sem var 8% fjölgun frá árinu áður en á sama tíma fjölgaði skjólstæðingum um 3%. Það að vitjunum fjölgar umfram fjölda skjólstæðinga endurspeglar að sögn Sigrúnar og Ingu að verið er að sinna veikari einstaklingum sem þurfa tíðari heimsóknir en áður. Fyrir sameininguna 2016 var framlag til heimahjúkrunar á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 100 milljónir króna til að efla þjónustuna á ný eftir niðurskurð í kjölfar efnahagshrunsins.  Í framhaldinu var stöðum fjölgað um 9 og nú starfa 82 hjá Heimahjúkrun í 62 stöðum. Þrátt fyrir þessa aukningu er eftirspurn eftir þjónustu Heimahjúkrunar meiri en framboðið og oftar en ekki eru 2-3 sem bíða, sérstaklega eftir kvöld-og helgarþjónustu. 

Áhersla á gæði

Sigrún og Inga segja kostinn við stóra rekstrareiningu vera meiri sveigjanleika.  Ef það eru veikindi eða mikið að gera á einum stað en rólegt á öðrum er hægt að miðla starfsfólki og verkefnum á milli. Þær segja að síðast liðinn vetur hafi  verið unnið að framtíðarstefnumótun Heimahjúkrunar og að því að útfæra verklagsreglur og skilgreina gæði þjónustunnar. Þær segja að megináherslan hafi frá upphafi þessa verkefnis verið að auka og bæta gæði þjónustunnar og því starfi verði haldið áfram. Þær benda hins vegar á að öldruðum muni fjölga mjög mikið á næstu árum og því sé nauðsynlegt að styrkja Heimahjúkrunina enn frekar til að mæta þeirri áskorun.

Myndatexti: Sigrún Kristín og Inga Valgerður segja að lögð hafi verið megináhersla á að auka og bæta gæði þjónustunnar og þeirri stefnu verði fylgt áfram.