Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og skýrsla Ríkisendurskoðunar

Mynd af frétt Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og skýrsla Ríkisendurskoðunar
28.04.2017

Ríkisendurskoðun (RE) birti nýlega skýrslu sína um niðurstöður úttektar á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) sem stofnunin réðist í að eigin frumkvæði.  Við fögnum skýrslunni en hún staðfestir að okkar mati ýmsa vankanta sem eru á skipulagi heilbrigðiskerfisins, þar á meðal skorti á fjármagni til heilsugæslunnar og óljóst hlutverk einstakra aðila í heilbrigðiskerfinu. Allt eru þetta atriði sem HH hefur vakið athygli á í samskiptum sínum við velferðarráðuneytið, Landlækni og aðra sem starfa innan heilbrigðiskerfisins.

Ábendingar RE sem snúa beint að HH eru að sjálfsögðu teknar alvarlega og verður þeim komið í viðeigandi farveg, að svo miklu leyti sem það er í valdi stjórnenda HH að bregðast við þeim.  Þrátt fyrir heildstæða umfjöllun og margar góðar ábendingar ber skýrslan með sér á köflum að RE hefði mátt kynna sér málið betur. Í skýrslunni er að finna ályktanir sem ekki eiga við rök að styðjast og upplýsingar sem eru úreltar og eiga ekki lengur við. Hér verður stiklað á nokkrum atriðum sem vert er að benda á í framhaldi af skýrslu RE.

Skertar fjárveitingar í áratug
Meðal þess sem dregið er fram í skýrslu RE er að stýring fjárveitinga innan heilbrigðiskerfisins hafi ekki verið til þess fallin að stuðla að því að heilsugæslan verði fyrsti viðkomustaður sjúklinga.  Bent er á að á árunum 2007 til 2016 hafi fjárframlög til HH aukist um 3% að raunvirði þótt íbúum svæðisins fjölgaði um 11% en á sama tíma hafi útgjöld vegna sérgreinalækninga aukist um 57%.  Hér er hins vegar ekki nema hálf sagan sögð. Fjárveitingar til HH voru skertar um 460 milljónir í kjölfar hrunsins. Sú 3% raunaukning sem RE segir HH hafa fengið var að mestu til að greiða fyrir kjarasamninga ríkisins við lækna og annað starfsfólk vegna kjarasamninga 2011 og 2015. Ef litið er framhjá launa- og verðlagsbótum voru fjárveitingar til HH á árinu 2016 í raun 9% lægri en þær voru fyrir hrun og hefur stofnunin því orðið að halda uppi þjónustu á skertum fjárveitingum síðast liðinn áratug og gerir enn. 

Hagsmunaárekstrar og helgunarálag
Í skýrslu RE er bent á hættu á hagsmunaárekstrum þegar læknar hjá HH starfa einnig á Læknavaktinni ehf. Í þessu sambandi er rétt að rifja upp að þetta fyrirkomulag var ákveðið af stjórnvöldum og hafa Sjúkratryggingar Íslands, í umboði velferðarráðuneytis, samið við einkafyrirtækið Læknavaktina um að sinna þjónustu við íbúa höfuðborgarsvæðisins eftir kl. 17:00 á daginn og um helgar. Þess má geta að þjónustutími heilsugæslustöðva HH er frá klukkan 8:00 til kl. 18:00 alla virka daga. Þjónusta Læknavaktarinnar er til kl. 23:00 alla daga og um helgar skv. fyrrgreindum samningi. Það er því beinlínis hluti af heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu að hafa læknavakt opna á þeim tíma sem heilsugæslan er ekki opin og er vandséð hvernig þeirri þjónustu verði sinnt án aðkomu lækna HH.

RE gerir einnig athugasemd við sérstakt helgunarálag sem læknar hafi fengið fyrir að sinna ekki launuðu aukastarfi og bendir á að dæmi séu um að læknar fái helgunarálag þrátt fyrir að gegna jafnframt störfum hjá Læknavaktinni.  Hér er rétt að benda á að helgunarálag er hluti af kjarasamningi Læknafélags Íslands við fjármálaráðuneytið og hefur verið hluti af launakjörum lækna í hartnær 20 ár.  Ekki verður séð að HH geti sagt upp þessu fyrirkomulagi einhliða án þess að setja heilsugæsluþjónustu á höfuðborgarsvæðinu í uppnám.

Samskiptavandi eða ólíkar faglegur áherslur
Hvað varðar samskiptavanda innan yfirstjórnar HH sem RE gerir að umtalsefni þá lítur stofnunin á þann vanda sem hluta af fortíðinni.  HH hefur farið í gegnum miklar skipulagsbreytingar síðustu misseri og við slíkar aðstæður geta eðli málsins samkvæmt verið uppi mismunandi skoðanir á þeim faglegu áherslum sem leggja ber til grundvallar hverju sinni.  Slíkur skoðanamunur var vissulega til staðar um tíma innan yfirstjórnar HH en er ekki lengur fyrir hendi og því vart þörf á aðkomu velferðarráðuneytisins vegna þessa. Núverandi stjórnendur eru sannfærðir um að skjólstæðingar heilsugæslunnar eigi eftir að njóta góðs af þeim breytingum sem unnið er að innan HH.

Skipulagsbreytingar og bætt þjónusta 
Meðal þeirra breytinga sem unnið hefur verið að síðustu tvö ár er að innleiða í áföngum nýtt skipulag á heilsugæslustöðvum HH sem miðar að því að bæta þjónustuna við nærsamfélagið með aukinni teymisvinnu. Sú innleiðing hefur gengið vel og um síðustu áramót var gengið frá síðustu skipulagsbreytingunum á heilsugæslustöðvum HH. HH bindur miklar vonir við þessar breytingar enda hafa þær nú þegar leitt til aukinnar ánægju meðal viðskiptavina og starfsmanna. 

Á þessum tíma hafa  30 nýir stjórnendur verið ráðnir til heilsugæslunnar í stað annara sem hafa hætt störfum. Þá hefur velferðarráðuneytið í samstarfi við Sjúkratryggingar Íslands tekið upp nýtt fjármögnunarlíkan sem á að jafna greiðslur til heilsugæslustöðva. Þessar breytingar og aðrar sem unnið hefur verið að undanfarið eru gerðar í anda svokallaðrar straumlínustjórnunar þar sem aðaláherslan hefur verið á teymisvinnu og góða samvinnu fagstétta. Með þessari nálgun hafa afköst heilsugæslunnar aukist verulega eins og skýrsla RE leiðir í ljós. Þess má geta að í skýrslu RE kemur fram að á Norðurlöndum eru hlutfallslega flestir íbúar á bak við hvern lækni í heilsugæslunni á Íslandi þrátt fyrir að hér á landi sé varið hlutfallslega mun minna fjármagni til heilsugæslunnar en í nágrannalöndunum. Hver starfsmaður hér á landi er því að sinna viðameiri verkefnum en í þeim löndum sem borið er saman við. 

Að endingu má geta þess að nú liggur fyrir tillaga að nýju heildarskipulagi fyrir HH sem bíður staðfestingar heilbrigðisráðherra. Megináherslan í þeim breytingum er að koma á öflugri stoðþjónustu sem styður við heilsugæslustöðvarnar. Enn fremur verður aukin áhersla á árangur og mælingar og þjónustu og aðgengi. Allt eru þetta þættir sem Ríkisendurskoðun dregur fram í sinni skýrslu.