Aprílpistill forstjóra

Mynd af frétt Aprílpistill forstjóra
24.05.2017

Ég vona að þið hafið öll notið páskafrísins, átt ánægjulegar stundir og fengið smá hvíld frá amstri hversdagsins. 

Stóra verkefnið þetta árið er aðlögun stöðva HH að nýju fjármögnunarkerfi. Frá ritun síðasta pistils hefur velferðarráðuneytið ákveðið að setja 200 m.kr. til viðbótar til fjármögnunar heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu. Sú viðbót bætir stöðu HH stöðva nokkuð frá því sem fyrr var áætlað, en kemur þó ekki í veg fyrir að um þriðjungur stöðvanna þarf að takast á við hagræðingu í rekstri sínum. 

Um síðustu mánaðamót var fjármálaáætlun til fimm ára (2018 – 2022) lögð fram á Alþingi. Samkvæmt henni verður á næstu árum lög sérstök áhersla á uppbyggingu innviða og eflingu velferðarkerfisins, m.a. með auknum útgjöldum til heilbrigðismála. Við lestur fjármálaáætlunarinnar kemur fram að gert er ráð fyrir að framlög til heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa aukist um 11,5 milljarða, þar af fara 2 milljarðar til aukinna útgjalda sjúkratrygginga umfram fjárlög. Auknum framlögum er að auki m.a. ætlað að mæta nýju greiðsluþátttökukerfi (greiðslur almennings vegna heilbrigðisþjónustu og þjálfunar) sem tekur gildi 1. maí nk. og þá er  áformað að draga enn frekar úr greiðsluþátttöku sjúklinga á tímabilinu. Loks er nefnt að í áætluninni sé gert ráð fyrir að efla heilsugæslu í landinu, fjölga sálfræðingum og geðheilsuteymum og styrkja þverfaglega þjónustu hennar. Efling heilsugæslunnar er fagnaðarefni, en því miður verður ekki séð á þessari stundu hver raunveruleg aukning til hennar verður á tímabilinu.

Mikil vinna er í gangi innan HH við gerð stofnanasamninga í samræmi við fyrirliggjandi kjarasamninga. Fyrir liggur að HH þarf að gera stofnanasamninga við 9 stéttarfélög, en fyrsti stofnanasamningurinn við BHM félögin, samningur HH og  Ljósmæðrafélags Íslands, var undirritaður í liðinni viku. Þá hafa HH og Sjúkraliðafélag Íslands að auki undirritað stofnanasamning.  

Tilraunasamningur HH og Útlendingastofnunar um þjónustu við  hælisleitendur rennur út í sumar. Samningurinn, sem er til árs, gerir ráð fyrir grunnþjónustu við 300 hælisleitendur, en þeir voru þegar orðnir 450 um áramótin síðustu. Í ljósi góðs gengis og ánægju með þjónustu Göngudeildar sóttvarna og hælisleitenda og að spár Útlendingastofnunar um fjölda hælisleitenda gera ráð fyrir mikilli fjölgun þeirra verður á næstu vikum unnið að endurnýjun samningsins til lengri tíma. 

Á morgun er sumardagurinn fyrsti og er hann jafnframt fyrsti dagur Hörpu, sem er fyrstur af sex sumarmánuðum samkvæmt gamla norræna tímatalinu. Veðrið er ekkert sérstaklega sumarlegt og líklega best að bíða aðeins með sumarfötin. En þetta er íslenska vorið og við fögnum því hvernig sem veðrið er. Ég óska ykkur öllum gleðilegs sumars. 

Svanhvít Jakobsdóttir 
 

Ábyrgð – Fagmennska – Traust – Þjónusta – Framþróun