Marspistill forstjóra

Mynd af frétt Marspistill forstjóra
23.06.2017

Framkvæmdastjórn HH fundaði nýverið með nýjum heilbrigðisráðherra, Óttarri Proppé. Á fundinum gafst framkvæmdastjórn færi á að kynna brýn mál sem snerta Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Farið var í stuttu máli yfir þær stjórnskipulagsbreytingar sem orðið hafa í heilsugæslunni og áherslubreytingar í starfseminni sem hrint hefur verið í framkvæmd. Ræddar voru niðurstöður fjármögnunarlíkansins, sem hefur verið tekið í gagnið án þess að það sé í raun tilbúið, og áhyggjur okkar af því fjármagni sem ætlað er til HH-stöðva. Miðað við dreifingu fjármögnunarlíkans í upphafi árs liggur fyrir að heildarframlagi til heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu er ekki öllu skipt milli stöðva sem mun þýða talsverðan samdrátt í rekstri 12 af 15 stöðvum HH og það er áður en nokkur ný samkeppni um heildarpottinn bætist við. Þessu tengt var rætt um raunminnkun fjárheimildar til HH frá efnahagshruni og um áherslur stjórnvalda undangenginn ára um eflingu heilsugæslunnar án þess að þess sjá stað í fjárveitingum hennar. Einnig voru rædd hin fjölmörgu geðheilbrigðisverkefni innan HH og verkefni og skyldur HH sem opinberrar heilsugæslu. 

Reglulegir fundir eru haldnir með velferðarráðuneytinu og Sjúkratryggingum Íslands um fjármögnunarlíkanið og þau álitaefni sem enn standa út af og þann hluta fjárveitingarinnar sem ekki virðist vera dreift út á stöðvarnar enn sem komið er. Það að dreifa ekki öllum „pottinum" út á stöðvarnar þýðir ekkert annað en skerðingu á þjónustu, sem gengur að okkar mati þvert á yfirlýst markmið stjórnvalda um eflingu heilsugæslunnar.    

Verkatölur ársins 2016 eru nú að líta dagsins ljós. Samkvæmt starfsemistölum úr Sögu var fjöldi læknisviðtala samtals 269.057 á árinu 2016, þar af 52.340 á síðdegisvakt. Til samanburðar var fjöldi læknisviðtala samtals 246.897 á árinu 2015, þar af 52.327 á síðdegisvakt. Læknisviðtölum fjölgar í heild um 9% milli áranna og er fjölgunin nánast öll á dagvaktinni. Fjölgun viðtala á dagvakt milli ára nemur rúmum 11%. Sannanlega góður árangur.    

Svæðisstjórar og framkvæmdastjórn áttu góðan vinnufund í Glym í byrjun mánaðar þar sem  stjórnendahlutverkið var krufið til mergjar, stjórnendur deildu reynslu sinni og gestafyrirlesarar komu með góð ráð og verkfæri í verkfærakistu stjórnandans.     

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og Reykjavíkurborg hafa skrifað undir samkomulag, sem felur í sér að Geðheilsustöð Breiðholts/geðteymi heimahjúkrunar hefur færst frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Innan Geðheilsustöðvar Breiðholts er starfrækt þverfaglegt geðhjúkrunarteymi sem sérhæfir sig í að sinna geðhjúkrun sjúklinga. Við erum stolt af þessu nýja verkefni okkar og bjóðum starfsfólk Geðheilsustöðvar velkomið. Við munum leggja okkar af mörkum svo Geðheilsustöð Breiðholts og það metnaðarfulla starf sem þar er unnið fái að vaxa og dafna innan  Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. 

Miklar truflanir hafa verið á símkerfi stofnunarinnar á undanförnum vikum með tilheyrandi óþægindum fyrir skjólstæðinga og starfsmenn HH. Þessi staða er í senn algerlega óviðunandi og óboðleg og eru skjólstæðingar og starfsmenn beðnir velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta hefur valdið. Ítrekað hefur verið unnið að því að leysa vandann með söluaðilum/þjónustuaðilum símkerfisins. Síðustu lagfæringar á símkerfinu virðist vera til bóta og símkerfið virkar nú eins og það á að gera, en í ljósi reynslu síðustu vikna og mánaða hefur sú ákvörðun verið tekin að bjóða út nýtt símkerfi fyrir stofnunina. Því ferli hefur verið hrundið af stað.

Þau eru fjölmörg verkefnin innan heilsugæslunnar. Enn er vetur og vetrarmánuðum fylgir ávallt aukið álag á starfsfólk vegna umgangspesta og bráðveikinda. 

Gangi okkur öllum vel í dagsins önn.

Svanhvít Jakobsdóttir 

Ábyrgð – Fagmennska – Traust – Þjónusta – Framþróun