Breytingum á heilsugæslustöðvum flýtt

Mynd af frétt Breytingum á heilsugæslustöðvum flýtt
28.04.2016

Framkvæmdastjórn Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefur ákveðið að flýta þeim skipulags- og áherslubreytingum sem verið er að gera á heilsugæslustöðvum stofnunarinnar. Þessum breytingum, sem hófust haustið 2015 átti að ljúka haustið 2017, en mun eftir flýtinguna ljúka í ársbyrjun 2017. 

Í þessu felst að breytingar á heilsugæslustöðvunum í Hlíðum, Efstaleiti og Efra-Breiðholti koma til framkvæmda 1. nóvember n.k., en á heilsugæslustöðvum á Seltjarnarnesi og Vesturbæ, í Hamraborg og Hvammi þann 1. janúar 2017. Breytingarnar miða að því að efla rekstrarlegt sjálfstæði stöðvanna, og auka áherslu á teymisvinnu og straumlínustjórnun innan stöðvanna. Svæðisstjóri verður ráðinn til að bera faglega og fjármálalega höfuðábyrgð á rekstri hverrar heilsugæslustöðvar.

Þegar hafa nýir svæðisstjórar verið ráðnir til starfa á sex heilsugæslustöðvum. Ennfremur hefur verið auglýst eftir umsóknum um stöður svæðisstjóra á þremur stöðvum til viðbótar.

Það ýtti undir þessa ákvörðun framkvæmdastjórnar að um næstu ármót er stefnt að því að nýtt fjármögnunarkerfi ríkisins fyrir heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu taki gildi.