Barnavinafélagið Sumargjöf veitir styrki

Mynd af frétt Barnavinafélagið Sumargjöf veitir styrki
27.04.2016

Tvö verkefni á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) fengu nýverið styrki frá Barnavinafélaginu Sumargjöf.

Þroska- og hegðunarstöð (ÞHS) fékk styrk fyrir námskeiðið Snillingarnir / The OutSMARTers program.

Styrkurinn fékkst til að uppfæra námskeiðið til að það henti betur eldri börnum og með nýrri útgáfu verður námskeiðið nú sérsniðið fyrir börn með ADHD á aldrinum 9-12 ára í stað 8-10 ára eins og fyrsta útgáfan er ætluð fyrir. Einnig verður styrkurinn notaður til að prufukeyra fyrstu námskeiðin.

Að endurskoðuninni vinna nú Dagmar Kr. Hannesdóttir sálfræðingur, Ester Ingvarsdóttir sálfræðingur, Margrét Ísleifsdóttir iðjuþjálfi og Steinunn F. Jensdóttir sálfræðingur sem allar starfa á ÞHS.

Verkefnið: Að bera kennsl á einhverfu í ung- og smábarnavernd sem samstarfsverkefni Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins og HH fékk einnig styrk.

Markmið verkefnisins er að stuðla að því að fleiri börn með einhverfu finnist fyrr í ung- og smábarnavernd hér á landi en nú er raunin. Það verður gert með því að: 

  • Efla þekkingu á einkennum einhverfu hjá ungum börnum í heilsugæslunni.
  • Skima fyrir einkennum einhverfu hjá öllum börnum sem koma til reglubundins eftirlits með þroska í ung- og smábarnavernd við 30 mánaða aldur.
  • Þróa verkferla við skimun og tilvísun í frekari athugun og snemmtæka íhlutun gefi niðurstöður tilefni til þess.

Um er að ræða formlegt rannsóknarverkefni til að meta árangur ofangreindra aðgerða eða svokallaða framvirka samanburðarrannsókn. Niðurstöður rannsóknarinnar ættu að nýtast við upplýsta ákvörðunartöku um hvort skimun fyrir einhverfu hjá öllum börnum í tengslum við ung- og smábarnavernd eigi rétt á sér á Íslandi.

Við þökkum Barnavinafélaginu Sumargjöf kærlega fyrir stuðninginn.