Svæðisstjórar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

Mynd af frétt Svæðisstjórar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins
19.02.2016

Í janúar sl. voru auglýst störf svæðisstjóra heilsugæslustöðvanna í Árbæ, Garðabæ og Mosfellsumdæmi. Umsóknarfrestur um störfin rann út þann 1. febrúar sl. Alls bárust 9 umsóknir um störf svæðisstjóranna.  

Helga Sæunn Sveinbjörnsdóttir hefur verið ráðin í starf svæðisstjóra Heilsugæslunnar í Garðabæ, Óskar Reykdalsson hefur verið ráðinn í starf svæðisstjóra Heilsugæslunnar Árbæ og Svanhildur Þengilsdóttir í starf svæðisstjóra Heilsugæslu Mosfellsumdæmis. Þau taka við starfi svæðisstjóra þann 1. maí nk.  

Helga Sæunn Sveinbjörnsdóttir 

Helga Sæunn Sveinbjörnsdóttir hefur verið ráðin í starf svæðisstjóra Heilsugæslunnar Garðabæ til fimm ára frá og með 1. maí 2016. Helga er yfirhjúkrunarfræðingur Heilsugæslu Garðabæjar og sérfræðingur í heilsugæsluhjúkrun. Hún er með B.Sc. gráðu í hjúkrun frá Háskóla Íslands og með meistaragráðu í hjúkrun og Nurse Practioner frá UNC, Chapel Hill, BNA.

Helga hefur starfað sem yfirhjúkrunarfræðingur Heilsugæslunnar Garðabæ frá árinu 2013. Hún hefur starfað sem verkefnisstjóri og sérfræðingur hjá  Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, hjúkrunarstjóri og verkefnastjóri hjá Heimaþjónustu Reykjavíkur, auk þess sem hún hefur m.a. starfað á heilsugæslustöðvunum á Egilsstöðum og Seyðisfirði, Heilbrigðisstofnun Austurlands, Borgarspítala og Þjónustumiðstöð rannsóknarverkefna.    

Óskar Reykdalsson 
 
Óskar Reykdalsson hefur verið ráðinn í starf svæðisstjóra Heilsugæslunnar Árbæ til fimm ára frá og með 1. maí 2016. Óskar er framkvæmdastjóri rannsóknarsviðs Landspítala. Hann er cand. med. et chir. frá Háskóla Íslands, sérfræðingur í heimilislækningum og með meistaragráðu í stjórnun heilbrigðisþjónustu frá Háskólanum á Bifröst.   
 
Óskar hefur, jafnhliða stjórnunarstörfum starfað sem sérfræðingur í heimilislækningum bæði hér á landi og erlendis. Hann gegndi starfi yfirlæknis við heilsugæslustöð Selfoss á árunum 1998 til 2004 og í framhaldinu starfi framkvæmdastjóra lækninga Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Hann gegndi því starfi til ársins 2014 er hann tók við núverandi starfi sínu sem framkvæmdastjóri rannsóknarsviðs Landspítala. Hann hefur starfað í hlutastarfi við heimilislækningar hjá Heilsugæslunni Árbæ og verið stundakennari við læknadeild Háskóla Íslands. 

Svanhildur Þengilsdóttir 

Svanhildur Þengilsdóttir hefur verið ráðin í starf svæðisstjóra Heilsugæslu Mosfellsumdæmis  til fimm ára frá og með 1. maí 2016.  Svanhildur er yfirmaður Þjónustu- og ráðgjafadeildar aldraðra hjá Kópavogsbæ. Hún er með B.Sc. gráðu í hjúkrun frá Háskóla Íslands og B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík. 

Svanhildur hefur starfað sem yfirmaður Þjónustu- og ráðgjafadeildar aldraðra hjá Kópavogsbæ frá árinu 2004. Þá veitt hún að auki forstöðu hjúkrunarheimili og dagþjálfun í Roðasölum frá 2004-2007, hún hefur og starfað hjá Rauða kross Íslands, meðal annars sem skólastjóri Sjúkraflutningaskólans, unnið á Bráðamóttöku Landspítalans, Múlabæ, dagvist aldraðra og Heilsugæslu Mosfellsumdæmis. 

Við bjóðum Helgu Sæunni, Óskar og Svanhildi velkomin til starfa hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.