Heilsugæslan Seltjarnarnesi og Vesturbæ opnuð eftir gagngerar breytingar

Mynd af frétt Heilsugæslan Seltjarnarnesi og Vesturbæ opnuð eftir gagngerar breytingar
28.01.2016

Heilsugæslan Seltjarnarnesi og Vesturbæ er nú flutt til baka á Suðurströnd 12 eftir að hafa verið starfrækt í rúmlega eitt ár á Landakoti á meðan gagngerar endurbætur fóru fram á húsnæði stöðvarinnar. Flutningi stöðvarinnar var fagnað í móttöku sem haldin var í dag í endurbættu húsnæði á Suðurströnd. Við það tækifæri færðu Lionsfélagar stöðinni veglegt fjárframlag til tækjakaupa.

Fyrsta sérhannaða heilsugæslustöðin

Húsnæði Heilsugæslu Seltjarnarness og Vesturbæjar er rúmir 1.000 fermetrar að stærð. Það er hannað af Jes Einari Þorsteinssyni, arkitekt og er fyrsta húsið sem var sérhannað fyrir heilsugæslu í landinu. Eftir rúmlega 30 ára starfsemi í húsinu var kominn tími á endurbætur, að utan jafnt sem innan. Fyrir nokkrum árum var ráðist í viðamiklar utanhússviðgerðir og var strax ljóst að ekki yrði farið í endurbætur innanhúss öðru vísi en að færa starfsemina annað á meðan. Auk umfangsmikils viðhalds og endurbóta var brýnt að bæta vinnuaðstæður starfsfólks og aðstöðu fyrir heilsuverndarstarfið. Meðal endurbóta sem nú var ráðist í má nefna að lagnakerfi hússins voru endurnýjuð og innréttingar lagfærðar eða endurnýjaðar. Gerðar voru breytingar á innra skipulagi þannig að húsið henti betur starfseminni og mæti þörfum nútíma heilbrigðisþjónustu.

Í móttökunni í dag sagði Svanhvít Jakobsdóttir forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins að haft hefði verið samráð við starfsfólk um fyrirkomulag endurbótanna og að markmiðið hefði verið að skapa starfsfólki og skjólstæðingum stöðvarinnar umgjörð og aðstæður sem öllum liði vel í hvort sem um væri að ræða stuttar heimsóknir eða langan vinnudag.  „Afrakstur þessa samstarfs er falleg og björt heilsugæslustöð, þar sem tekist hefur að bæta starfsaðstæður og skapa umhverfi sem tekur vel á móti skjólstæðingum heilsugæslunnar. Af þessu getum við verið stolt,“ sagði Svanhvít. 

16 þúsund íbúa þjónustusvæði

Heilsugæslan Seltjarnarnesi og Vesturbæ er hverfisstöð sem þjónar tæplega 16.000 Seltirningum og Vesturbæingum. Svæði stöðvarinnar nær yfir Seltjarnarnes og Vesturbæ Reykjavíkur sunnan Hringbrautar, þ.m.t. er allt háskólahverfið og Skerjafjörður. Að auki veitir stöðin 5 grunnskólum á svæðinu heilsugæsluþjónustu. 
Arkitektastofan Ask sá um hönnun breytinganna og var verkfræðihönnun unnin í samvinnu við VSÓ Ráðgjöf. Framkvæmdasýslan hafði umsjón með framkvæmdum og daglegt eftirlit fyrir Ríkiseignir sem héldu utan um verkið.  Aðalverktaki endurbótanna var Þarfaþing hf.

Myndin er frá opnunarathöfninni. Frá vinstri: Árni Scheving Thorsteinsson yfirlæknir, Emilía P. Jóhannsdóttir yfirhjúkrunarfræðingur, Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra og Svanhvít Jakobsdóttir forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.