Heilsugæsla barna – Hvað er best?

Mynd af frétt Heilsugæsla barna – Hvað er best?
17.12.2015

Nýlega var haldinn í Imperial College London fyrsti fundur evrópskra fræðimanna sem taka þátt í nýju samstarfsverkefni þar sem heilbrigðisþjónusta fyrir börn er til skoðunar í 30 löndum innan Evrópusambandsins og evrópska efnahagssvæðisins. Rannsóknarverkefnið hefur fengið nafnið MOCHA sem er skammstöfun á ensku heiti þess (Models of Child Health Appraised). Markmið vinnunnar er að koma með tillögur um á hvern hátt hægt sé að veita börnum og fjölskyldum sem besta heilbrigðisþjónustu sem styður við almenna heilsu, vellíðan og þroska þeirra. 

Rannsóknarverkefnið er fjármagnað af Horizon 2020 samkeppnissjóði Evrópusambandsins til rúmlega þriggja ára með tæplega milljarði íslenskra króna (6.9m evra). Á bak við rannsóknarhópinn standa 19 rannsóknarstofnanir í 11 Evrópulöndum auk fræðimanna frá Ástralíu, Bandaríkjunum og Sviss undir stjórn Dr. Mitch Blair, prófessors í heilsuvernd barna við Imperial College London.

Verkefnið nýtur stuðnings sérstaks 12 manna ráðgjafahóps með fulltrúum helstu hagsmunaðila og alþjóðlegra stofnana sem vinna við að efla og bæta heilsu barna, þ.á.m. tveggja Íslendinga sem eru báðir starfsmenn Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Tengiliðir MOCHA á Íslandi

Þátttakandi og landsfulltrúi
Geir Gunnlaugsson barnalæknir og lektor í hnattrænni heilsu við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands, geirgunnlaugsson@hi.is, sími 525 4369/fs. 843 6237

Íslenskir sérfræðingar í 12-manna ráðgjafanefnd verkefnisins:
Katrín Fjeldsted heimilislæknir á heilsugæslustöðinni í Efstaleiti og forseti CPME, evrópsku læknasamtakanna, katrin.fjeldsted@heilsugaeslan.is
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, hjúkrunarfræðingur og sviðsstjóri skólaheilsugæslu á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Ragnheidur.Osk.Erlendsdottir@heilsugaeslan.is

Á myndinni eru frá vinstri Ragnheiður Ósk, Geir, Daði Már Kristófersson, Forseti Félagsvísindasviðs  og Katrín.

Heilsugæsla barna – Hvað er best? 

Börn eru á eigin forsendum mikilvægur hópur í samfélaginu og eiga lagalegan og siðferðilegan rétt á góðri heilsu í samræmi við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Börn eru framtíð Evrópu og komandi vinnuafl í þeim samfélögum þar sem þau búa. Grunnur að góðri heilsu á efri árum er lagður í æsku og mótar líkamlega heilsu og venjur um heilbrigða lífshætti til framtíðar. Heilsa barna er því ekki eingöngu mikilvæg fyrir börnin sjálf heldur ekki síður fyrir heilbrigði íbúa Evrópu til framtíðar.

Börn eru háð fullorðnum og heilbrigðisþjónustan sem þau fá endurspeglar þær áherslur sem samfélagið hefur um hana hverju sinni. Aftur á móti er ekki einhugur um á hvern hátt best sé að skipuleggja heilsugæslu fyrir börn og endurspeglast það í mikilli fjölbreytni milli landa á skipulagi hennar.
Í stuttu máli má segja að megin ágreiningurinn í Evrópu sé um hvort heimilislæknar eða barnalæknar skuli koma að heilsugæslu barna. Fram að þessu liggja ekki fyrir neinar rannsóknir sem geta sýnt fram á hvaða skipulag sé áhrifaríkast. Það gæti þýtt að börn í Evrópu væru ekki öll að fá þjónustu sem uppfyllir gagnreyndar kröfur um góða og markvissa heilbrigðisþjónustu.

Í MOCHA rannsóknarhópnum leitast þátttakendur við að finna svör við ofangreindu álitamáli með því að skoða heilbrigðisþjónustu fyrir börn í öllum löndum Evrópusambandsins og á evrópska efnahagssvæðinu, þar með talið á Íslandi. Þeir sem standa að MOCHA munu vinna með landsfulltrúum verkefnisins í öllum 30 löndunum til að safna saman og greina grunnupplýsingar um heilsugæslu barna og helstu þætti hennar í hverju landi fyrir sig:

  • Mismunandi þjónustuform heilsugæslu fyrir börn, þar með talin bráðaþjónusta
  • Þjónusta við börn þvert á mismunandi  þjónustukerfi (2. stigs heilbrigðisþjónusta, félagsþjónusta, skólakerfið o.s.frv.), þar með talin þjónusta vegna flókinna heilbrigðisvandamála og barnaverndar
  • Heilsuvernd skólabarna
  • Unglingamóttökur
  • Finna nýjungar til að meta gæði og árangur
  • Nýta stóra gagnagrunna til að mæla gæði og árangur
  • Hagkvæmni þjónustunnar
  • Jafnræði barna
  • Notkun rafrænna sjúkraskráa

MOCHA verkefnið mun standa yfir í þrjú ár og lýkur með lokaskýrslu við árslok 2018. Fyrsta árið munu landsfulltrúar MOCHA safna saman upplýsingum um þjónustu heilsugæslu í öllum 30 löndunum, byggðar á vel skilgreindum breytum sem eru samræmdar fyrir þau öll. Fræðimenn verkefnisins munu síðan fara yfir innsent efni og ræða fyrstu niðurstöður. Þær verða síðan teknar til frekari greiningar svo leggja megi grunn að tillögum um á hvern hátt hægt sé að veita börnum sem besta heilbrigðisþjónustu. Einnig að koma með ábendingar um hugsanlegar leiðir til að lönd í Evrópu geti nýtt sér niðurstöðurnar. Á öllum verkefnistímanum verður lögð rækt við að upplýsa um framgang verkefnisins og hafa góð tengsl við hagsmunaaðila. 

Erlendir tengiliðir vegna MOCHA

Almennar fyrirspurnir: Christine Chow, verkefnisstjóri, christine.chow@imperial .ac.uk

Vefur MOCHA: http://www.childhealthservicemodels.eu/