Nýir svæðisstjórar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

Mynd af frétt Nýir svæðisstjórar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins
04.09.2015

Í júní sl. voru auglýst störf svæðisstjóra heilsugæslustöðvanna í Glæsibæ, Grafarvogi og Mjódd. Umsóknarfrestur um störfin rann út þann 13. júlí sl. Alls bárust 12 umsóknir um störf svæðisstjóranna.  

Halldór Jónsson hefur verið ráðinn í starf svæðisstjóra Heilsugæslunnar Glæsibæ, Hrafnhildur Halldórsdóttir í starf svæðisstjóra Heilsugæslunnar í Mjódd og Ófeigur Tryggvi Þorgeirsson í starf svæðisstjóra Heilsugæslunnar Grafarvogi. Þau taka við starfi svæðisstjóra þann 1. október nk.  

Halldór Jónsson 

Halldór Jónsson hefur verið ráðinn í starf svæðisstjóra Heilsugæslunnar Glæsibæ til fimm ára frá og með 1. október 2015. Halldór er yfirlæknir Heilsugæslunnar Glæsibæ. Hann er cand. med. et chir. frá Háskóla Íslands, sérfræðingur í heimilislækningum og m.a. með meistaragráðu í læknisfræði frá Uppsala háskóla, Svíþjóð. 

Halldór hefur um árabil starfað sem sérfræðingur í heimilislækningum bæði hér á landi og erlendis. Hann gegndi embætti héraðslæknis Vesturlands í tæpan áratug, var ráðgjafi og verkefnisstjóri hjá Þróunarsamvinnustofnun Íslands og hefur verið klínískur lektor við heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands frá árinu 2009. Halldór hefur setið í fjölmörgum nefndum og stjórnum tengdum heilbrigðisþjónustu.            

Hrafnhildur Halldórsdóttir 

Hrafnhildur Halldórsdóttir hefur verið ráðin í starf svæðisstjóra Heilsugæslunnar Mjódd til fimm ára frá og með 1. október 2015. Hrafnhildur er yfirhjúkrunarfræðingur Heilsugæslu Mosfellsumdæmis. Hún er með BS gráðu í hjúkrun frá Stony Brook University, New York, diplómanám í stjórnun og rekstri í heilbrigðisvísindum og meistaragráðu í lýðheilsuvísindum frá Háskóla Íslands.  

Hrafnhildur hefur starfað sem yfirhjúkrunarfræðingur hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins frá árinu 2007 og sem hjúkrunarfræðingur frá árinu 1995, m.a. sem verkefnastjóri í skólaheilsugæslu. Hún hefur auk þess starfað sem hjúkrunarfræðingur hjá Hrafnistu, m.a. sem deildarstjóri á hjúkrunardeildum, á gjörgæsludeild Borgarspítalans og á handlækningadeild Stony Brook University Medical Center í New York.

Ófeigur Tryggvi Þorgeirsson  

Ófeigur Tryggvi Þorgeirsson hefur verið ráðinn í starf svæðisstjóra Heilsugæslunnar Grafarvogi til fimm ára frá og með 1. október 2015.  Ófeigur er settur framkvæmdastjóri þróunarsviðs Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Hann er cand. med. et chir. frá Háskóla Íslands, sérfræðingur í lyflækningum og heimilislækningum, er með formlega þjálfun í klínískri kennslu í heimilislækningum frá University of Massachusetts og með meistaragráðu í lýðheilsu og stjórnun frá Háskólanum í Reykjavík.    

Ófeigur hefur m.a. starfað sem heilsugæslulæknir hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins frá árinu 2010, yfirlæknir á slysa- og bráðadeild LSH og  yfirlæknir lyflækninga hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Hann hefur verið virkur í kennslu heilbrigðisstétta á LSH og kennslu læknanema og lækna í sérnámi.  

Ófeigur hefur setið í fjölmörgum nefndum tengdum heilbrigðisþjónustu og sinnt vísindarannsóknum og greinaskrifum.

Við bjóðum Halldór, Hrafnhildi og Ófeig velkomin til nýrra starfa hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins