Landspítali og Heilsugæslan semja um bætt skipulag sérnámskennslu í heimilislækningum

Mynd af frétt Landspítali og Heilsugæslan semja um bætt skipulag sérnámskennslu í heimilislækningum
05.06.2015

Kveðið er skýrar á um skipulag kennslu í sérnámi í heimilislækningum á Landspítala og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) í endurnýjuðu samkomulagi sem stofnanirnar hafa gert með sér. 

Forstjórar þeirra, Páll Matthíasson og Svanhvít Jakobsdóttir, undirrituðu samkomulagið 5. júní 2015. Með samkomulaginu er leitast við að styrkja enn frekar við sérnám í heimilislækningum sem samfellds námstíma á heilsugæslustöðvum og Landspítala. 

Í samkomulaginu felst meðal annars að komið verður á auknu samráði og umsjón með námi og kennslu sérnámslækna í heimilislækningum innan Landspítala.  Skipaðir verða umsjónarlæknar, einn frá hvorum aðila, sem sameiginlega munu bera ábyrgð á kennslu og námi sérnámslækna innan Landspítala.  Þessum tveimur er ætlað að vinna náið með sérnámslæknum, mentorum, kennslustjóra og fleirum innan Landspítala.  Seinna í sumar hefst vinna við að móta nánar starfshlutverk þessara lykilaðila sem á að treysta mjög stöðu sérnámslækna í heimilislækningum innan Landspítala og skapa meiri samfellu og heild á námstímanum en verið hefur.  

Á myndinni eru frá vinstri: Ófeigur Þorgeirsson framkvæmdastjóri Þróunarsviðs HH, Svanhvít Jakobsdóttir forstjóri HH og Páll Matthíasson forstjóri Landspítala.