Sérnám í heilsugæsluhjúkrun hefst

Mynd af frétt Sérnám í heilsugæsluhjúkrun hefst
30.04.2015

Nú er að fara af stað langþráð sérnám í heilsugæsluhjúkrun í samstarfi við Háskólann á Akureyri.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra, Svanhvít Jakobsdóttir forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Eyjólfur Guðmundsson rektor Háskólans á Akureyri  skrifuðu undir samning um sérnámið á Akureyri í dag.
 
Viðfangsefni sérnáms í heilsugæsluhjúkrun er að efla hæfni hjúkrunarfræðinga í starfi á heilsugæslustöð ásamt því að móta viðhorf og sýn til þjónustu heilsugæslunnar. Nemendur fá tækifæri til að rýna í gagnreynda starfshætti og þjálfa með sér færni til að nýta í daglegu starfi undir handleiðslu lærimeistara á heilsugæslustöð . 
 
Námið samanstendur af fræðilegu námi við Háskólann á Akureyri og klínískri þjálfun á heilsugæslustöð hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins undir handleiðslu lærimeistara. Námið er skipulagt til eins árs og lýkur með diplóma gráðu.
 
Mikill áhugi er á þessu námi og sendu fimmtán hjúkrunarfræðingar inn umsókn og munu sex þeirra hefja nám nú í ágúst. 
 
Fjölmargir starfsmenn HH koma að sérnáminu, bæði sem lærimeistarar og kennarar. Umsjónarkennari er Sigríður Sía Jónsdóttir, lektor Heilbrigðisvísindasviðs HA og sérfræðikennari er Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, sviðsstjóri skólasviðs, Þróunarsviði HH.
 
Heilbrigðisstarfsfólk innan heilsugæslunnar hefur kallað eftir auknu námsframboði, og þá sérstaklega námsframboði með klínískri þjálfun, sem tekur mið af þörfum heilsugæslunnar til að mæta framtíðarkröfum um þjónustu. Með betur þjálfuðum hjúkrunarfræðingum er hægt að efla starfsemina enn frekar og takast á við flóknari verkefni innan heilsugæslunnar.