Fundur um stöðu HH og LSH með þingmönnum Reykjavíkurkjördæma

Mynd af frétt Fundur um stöðu HH og LSH með þingmönnum Reykjavíkurkjördæma
08.10.2014

Forstjórar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Landspítala háskólasjúkrahúss buðu þingmönnum Reykjavíkurkjördæma til fundar föstudaginn 3. október til að ræða fjárhagsstöðu stofnananna og önnur knýjandi mál og áskoranir sem stofnanirnar standa frammi fyrir. 

Var staðan rædd í ljósi fjárlagafrumvarps ríkisstjórnarinnar fyrir 2015, sem ekki uppfyllir óskir stofnananna um auknar fjárheimildir til að bæta úr niðurskurði undanfarinna ára.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins býr áfram við 13% lægri fjárheimildir að raungildi en fyrir hrun, ef frumvarpið verður samþykkt óbreytt. Landspítalinn hefur  orðið fyrir svipuðum niðurskurði.

Páll Matthíasson forstjóri LSH og Svanhvít Jakobsdóttir forstjóri HH kynntu stöðu stofnananna, en tóku jafnframt fram að þrengingar eins hluta heilbrigðiskerfisins yki oft á vanda annars og þannig ykist álag á spítalann þegar heilsugæslan getur ekki sinnt hlutverki sínu.

Landspítalinn telur brýnt að bæta aðstöðu, húsnæði, tæki og möguleikar þurfi að vera á að mæta ófyrirséðum kostnaði s.s. eins og vegna nýrra S-merktra lyfja.  Heilsugæslan leggur höfuðáherslu á að  bæta kjör starfsmanna sinna og halda áfram að byggja upp og efla starfsemina til að geta staðið undir væntingum um að vera fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu. 

Svanhvít Jakobsdóttir lýsti þeirri sýn sinni á fundinum að heilsugæslan er fjárfesting í heilsu til framtíðar og mikilvægt í nánustu framtíð að sálfræðiþjónusta standi  skjólstæðingum til boða á öllum heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins, að heilsuvernd aldraðra verði stóraukin, hugræn atferlismeðferð verði í boði á öllum stöðvum og að þjónusta við sykursjúka og astma- og lungnaveika verði komin í gang á öllum heilsugæslustöðvum.

Níu þingmenn Reykjavíkur sátu fundinn.