Háskólinn og Heilsugæslan efla samstarf sitt

Mynd af frétt Háskólinn og Heilsugæslan efla samstarf sitt
12.02.2014

Fulltrúar Háskóla Íslands og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hafa undirritað nýjan samstarfssamning sem felur m.a. í sér áform um að efla nýliðun fagfólks í heilsugæslunni. Í samningnum er háskólahlutverk heilsugæslustöðvanna skilgreint og samstarf Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands formfest enn frekar.

Samningurinn, sem er til fimm ára, kemur í stað eldri samstarfssamnings og er tilgangurinn að nýta sem best sérþekkingu, kunnáttu, efnivið og aðstöðu sem báðir samningsaðilar búa yfir. Markmiðið er að styrkja nýliðun fagfólks í heilsugæslunni, að starfsfólk heilsugæslunnar og nemendur og starfsfólk Háskóla Íslands hafi greiðan og gagnkvæman aðgang að sérþekkingu, að stuðla að framgangi vísindarannsókna heilbrigðisstétta tengdum heilsugæslu og tryggja gæði klínískrar kennslu í heilbrigðisvísindum. Samkvæmt samningnum munu háskólinn og heilsugæslan vinna saman að kennslu nema, en einnig að þróun þeirrar þjónustu sem veitt er á heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins og að nýsköpun innan heilsugæslunnar. 

Starfsfólk heilsugæslunnar tekur þátt í klínískri kennslu í heilbrigðisvísindagreinum á vegum Háskólans, undir leiðsögn og stjórn háskólakennara, en akademískt menntaðir starfsmenn innan heilsugæslunnar sinna einnig leiðsögn og kennslu í samræmi við starf sitt. Þannig geta einstaka háskóladeildir innan Háskóla Íslands, í samráði við stjórnendur innan heilsugæslunnar, leitað til starfsmanna heilsugæslunnar og falið þeim að leiðbeina nemendum í klínísku námi á viðkomandi heilsugæslustöð. Auk læknisfræði, hjúkrunarfræði og ljósmóðurfræði er gert ráð fyrir að samstarfssamningurinn geti tekið til tannlæknisfræði, sjúkraþjálfunar, klínískrar sálfræði, næringarfræði, lyfjafræði, félagsfræði (félagsráðgjafar) og fleiri greina.

Samkvæmt samningnum munu deildir Heilbrigðisvísindasviðs taka þátt í endurmenntun og fræðslu háskólamenntaðra starfsmanna heilsugæslunnar. Þá mun sviðið eftir atvikum gefa háskólamenntuðu starfsfólki heilsugæslunnar kost á að sækja um mat á akademísku hæfi sínu og akademíska nafnbót við Háskóla Íslands. Enn fremur munu starfstengsl háskólamanna við heilsugæsluna geta orðið með tvennu móti, annars vegar í starfi innan heilsugæslunnar samhliða háskólastarfinu, eða öfugt, í samhliða starfi með gerð sérstaks ráðningarsamnings. 

Þá hyggjast Háskóli Íslands og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins vinna saman að því að efla akademískt rannsókna- og vísindastarf og styrkja þjónustuhlutverk heilsugæslunnar. Einnig er ætlunin að efla þverfaglegar rannsóknir og kennslu í heilbrigðisvísindagreinum og leitast verður við að styrkja enn frekar rannsóknasamstarf við aðra aðila innan og utan lands.

Sérstök samstarfsnefnd, skipuð þremur fulltrúum frá hvorum aðila, mun hafa umsjón með samningnum.

Á myndinni eru frá vinstri:
Fremri röð: Kristján G. Guðmundsson framkvæmdastjóri þróunarsviðs, Svanhvít Jakobsdóttir forstjóri, Kristín Ingólfsdóttir rektor, Inga Þórsdóttir forseti heilbrigðisvísindasviðs, Helga Jónsdóttir forseti hjúkrunarfræðideildar. 
Aftari röð: Magnús Karl Magnússon forseti læknadeildar, Jón Atli Benediktsson aðstoðarrektor, Þórður Kristinsson sviðsstjóri kennslusviðs HÍ, Sigurður J. Grétarsson forseti sálfræðideildar, Þórunn Ólafsdóttir hjúkrunarforstjóri, Jónas Guðmundsson framkvæmdastjóri sviðs fjármála- og rekstrar, Stefán B. Matthíasson staðgengill lækningaforstjóra.