Patch Adams á 10 ára afmæli Hugarafls

Mynd af frétt Patch Adams á 10 ára afmæli Hugarafls
29.05.2013

Hinn heimsfrægi læknir, Patch Adams heldur fyrirlestur í Þjóðleikhúsinu um hugsjónir sínar og aðferðir á sinn einstaka hátt. Fyrirlesturinn fer fram þann 6. júní 2013 í tilefni af 10 ára afmæli Hugarafls.

Patch lærði læknisfræði og var kennurum sínum og skólastjórn erfiður þegar hann reyndi að lífga upp á námið og umönnun sjúklinga með kærleik og húmor að vopni. Trúðsnef og fíflalæti féllu sjúklingum vel í geð. Árið 1998 var gerð kvikmynd byggð á ævi hans og fór þar Robin Williams á kostum í hlutverki Patch Adams. Myndin fór sigurför um heiminn og var meðal annars tilnefnd til Óskarsverðlauna.

Sem læknir vill hann gefa sjúklingum sínum tíma og meðhöndla sjúklinga sína sem manneskjur en ekki sem bilaðar vélar. Patch stofnaði seinna „Gesundheit“ stofnun/sjúkrahús, eða kannski réttara að kalla það samfélag. Þar geta allir komið og notið læknisþjónustu, hvort sem þeir eru ríkir eða fátækir. Allir á staðnum eru jafnir, hvort sem það eru læknar, notendur/sjúklingar, hjúkrunarfólk, kokkar eða ræstingafólk. Framlag allra er jafnt metið. Starfsfólk gefur vinnuna sína og ætíð er biðlisti að komast að sem læknir þar. Lögð er áhersla á óhefðbundnar lækningar, samhliða þeim hefðbundnu og alltaf lagt mikið upp úr kærleik og húmor.

Hugarafl hefur alltaf unnið eftir sömu hugmyndafræði og varpað ljósi á bataferli geðsjúkra í gegnum valdeflingu. Allir eru jafnir, fjölbreytileikinn er hátt skrifaður, virðing og kærleikur hiklaust notaður í starfinu öllu. Það er því stórkostlegt tækifæri fyrir Hugarafl að fá Patch Adams í heimsókn á þessum tímamótum.

  •  Aðgöngumiðar fást á midi.is

Geðheilsa - eftirfylgd sem er hluti af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins starfar náið með Hugarafli sem er samstarfshópur notenda og fagfólks.