Njóttu þess að borða 2013

Mynd af frétt Njóttu þess að borða 2013
29.04.2013

Námskeið sem kallast „Njóttu þess að borða“ hefur formlega göngu sína í haust nánar tiltekið 28. ágúst í Heilsugæslunni Árbæ. Þetta er heilsueflandi námskeið sem er ætlað konum í yfirvigt (með BMI yfir 30 kg/m²). 

Þróun námskeiðsins og forprófun var hluti af lokaverkefni hjúkrunarfræðinganna Helgu Lárusdóttur og Helgu Sævarsdóttur úr Lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands. Innleiðing þess á heilsugæsluna í Árbæ hefur verið í mótun sl. tvö ár og nú er stefnt að því að bjóða upp á tvö námskeið á ári.

Um er að ræða 15 vikna námskeið, hóptímar eru 14 og einstaklingstímar þrír. Hóptímar eru að meðaltali 3-4 sinnum í mánuði í tvo tíma í senn og byggja á hópefli, fræðslu, fyrirlögn heimavinnu, gönguferðum, teygjum og slökun.

Námskeiðið byggir á hugrænni atferlismeðferð (HAM), þjálfun svengdarvitundar (AAT), hreyfingu, slökun og heilbrigðu mataræði.

Markmið námskeiðsins er að bæta heilsu kvenna í yfirvigt, aðstoða þær við að breyta lífsstíl til frambúðar með því að breyta hugarfari, matarvenjum og hreyfingu og draga þannig úr líkum á neikvæðum heilsufarsáhrifum sem óheilbrigður lífsstíll getur valdið.

Forprófun námskeiðsins sýndi góðan árangur, einnig hafa þátttakendur verið mjög ánægðir með námskeiðið og gáfu allir þátttakendur á síðasta námskeiði því einkunnina 10.

Til að meta árangur eru lagðir fyrir kvarðar sem meta lífsgæði, lífsstíl og einkenni þunglyndis. Hæð er mæld í upphafi og þyngd reglulega á námskeiðstíma.

  • Nánari upplýsingar um námskeiðið eru á hér á vefnum