Samræmd þjónusta heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu í Kópavogi

Mynd af frétt Samræmd þjónusta heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu í Kópavogi
16.10.2012

Þjónustusamningur  Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Kópavogsbæjar um samræmda þjónustu heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu Kópavogsbæjar hefur verið í gildi frá því október 2010.

Markmið samningsins  er að samþætta þjónustu fyrir sameiginlega skjólstæðinga heimahjúkrunar heilsugæslunnar í Kópavogi og heimaþjónustu Kópavogsbæjar, auka, efla og bæta þjónustuna í heimahúsum og  nýta þá fjármuni sem til eru ráðstöfunar, eins vel og kostur er. Markmið samþættingar þjónustunnar er að gera Kópavogsbúum kleift að dvelja heima eins lengi og unnt er með því að skapa þeim aðstæður til að lifa sem eðlilegustu lífi heima, þrátt fyrir veikindi, skerta færni eða skerðingu á högum og aðstæðum samfara hækkandi aldri eða fötlun.

Samþættingin hefur gengið vonum framar og má fullyrða að ekkert sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu hefur náð sambærilegum árangri í að samræma þjónustuna eins vel og orðið er í Kópavogi. Báðir aðilar samningsins eru sammála hvað þetta varðar. 

Heilsugæslan hefur á þessum tíma bætt við 2,4 stöðugildum sjúkraliða og félagsliða og þá aðallega til að mæta aukinni þjónustuþörf á kvöldin og um helgar. Aukningin dugði ekki til að mæta þjónustuþörfinni og við fögnum því nýjum þjónustusamningi þar sem Kópavogsbær leggur til eitt stöðugildi félagsliða til viðbótar.

Samstillt átak heimahjúkrunar og  félagslegrar heimaþjónustu bætir  lífsgæði eldra fólks í Kópavogi.