Sjúkraskrárkerfið Ískrá á landsvísu

Mynd af frétt Sjúkraskrárkerfið Ískrá á landsvísu
05.10.2012

Gerður hefur verið samningur á milli Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) og Embættis landlæknis um innleiðingu Ískrár á landsvísu. Ískrá er sjúkraskrárkerfi, sem þróað var innan HH og hefur verið notað í öllum skólum á svæði stofnunarinnar frá árinu 2003. 

Ískrá er notað við skráningu í heilsuvernd skólabarna og hefur reynst vel. Athygli hefur vakið hversu aðgengilegt er að ná gögnum út úr kerfinu til gæðastarfs, bæði starfsemistölum og heilsufarstölum.  Í kjölfarið hafa margir á landsbyggðinni óskað eftir að fá að nota kerfið þar sem það sparar tíma og veitir góða yfirsýn yfir þau störf sem unnin eru í heilsuvernd skólabarna.  

Starfsfólk HH tekur að sér að þjónusta notendur Ískrárinnar um allt land og vinna starfsemistölur fyrir hverja heilbrigðisstofnun fyrir sig eins og gert hefur verið fyrir notendur HH. Einnig mun HH hýsa öll gögn sem skráð verða í Ískrá. Gagnavinnsla á landsvísu til gæðaþróunar og gæðaeftirlits verður á vegum HH og Embætti landlæknis.

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja varð fyrst til að tengjast gagnagrunni Ískrár en starfsfólk í heilsuvernd skólabarna á Suðurnesjum byrjaði að skrá í Ískrá 1. október og Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja verður næst í röðinni en áætlað er að þau tengist þann 9. október.

Með innleiðingu Ískrár á landsvísu opnast möguleiki á að fá heilsufarsupplýsingar um öll börn 6 til 16 ára og skoða eftir atvikum hvort munur er á heilsufari eftir landshlutum eða skólum. Möguleikar til að meta árangur þess starfs sem unnið er í heilsuvernd grunnskólabarna aukast til muna og þar með heilsuefling barna og ungmenna um allt land.