Athygli, já takk - Samevrópska ADHD vitundarvikan

Mynd af frétt Athygli, já takk - Samevrópska ADHD vitundarvikan
20.09.2011

Samevrópska ADHD vitundarvikan stendur yfir 18. - 25 september

Markmið ADHD vitundarvikunnar er að auka þekkingu almennings á ADHD, eyða fordómum, auka skilning og efla stuðning  við fólk með ADHD með opinskárri og skammarlausri umfjöllun. Auk þess eru veittar ýmsar upplýsingar um ADHD.

Þroska- og hegðunarstöð (ÞHS) veitir þjónustu vegna barna sem glíma við frávik í þroska eða hegðun. Meðal annars er sinnt greiningu, ráðgjöf, meðferð og fræðslu vegna barna að 12 ára aldri, sem hafa hamlandi einkenni ADHD.

Árið 2010 voru rúmlega 150 börn greind með ADHD hjá ÞHS. Um 40 börn til viðbótar áttu í töluverðum vanda vegna ADHD einkenna, þótt þau hafi ekki náð að uppfylla greiningarskilmerki. Eftirfylgdin felst í fræðslu til foreldra, ráðlegginga til skóla, myndun þjónustuteymis og í sumum tilfellum lyfjameðferð barna.

Auk þess eru haldin færniþjálfunarnámskeið bæði fyrir foreldra barna með ADHD og börnin sjálf. Slík úrræði þykja vænleg til árangurs og mikil sókn er í þau. Erfitt reynist að anna eftirspurn.

ADHD samtökin leiða ADHD vitundarvikuna undir slagorðinu “ATHYGLI,  JÁ TAKK. Meðal annars verður haldið málþing föstudaginn 23. september undir yfirskriftinni: Nýjar lausnir – ný sýn.  Þar verða kynnt verkefni sem sveitarfélögin hafa staðið að til bættrar þjónustu við börn með ADHD.  Sýnd verða myndbönd um ungmenni með ADHD og kynnt verður Fókus sjálfshjálparforrit  fyrir fullorðna með ADHD.  Nánari dagskrá málþingsins er að finna á vef ADHD samtakanna.