Efld og bætt sálfræðiþjónusta við langveik börn

Mynd af frétt Efld og bætt sálfræðiþjónusta við langveik börn
19.07.2011

Velferðarráðuneytið vill vekja athygli á því að ráðinn hefur verið sálfræðingur með sérmenntun í málefnum langveikra barna til að efla og bæta þjónustu við langveik börn og aðstandendur þeirra sem njóta þjónustu Barnaspítala Hringsins.

Sérstök áhersla verður lögð á þjónustu við þá hópa langveikra barna sem hingað til hefur ekki verið sinnt á skipulegan hátt og einnig verður komið á fót stuðningshópum aðstandenda. Þá er gerð ráð fyrir því að auka eftirfylgni meðferðar og þjónustu hjá þeim fjölskyldum þar sem þörfin telst mest að útskrift lokinni.

Sálfræðingurinn mun veita börnum og aðstandendum þeirra sálfræðiþjónustu auk þess að vinna að þróun og skipulagningu þjónustunnar í samráði við yfirmenn og starfsfólk spítalans sem starfar á þessu sviði.