Bólusetning gegn pneumókokkum hefst 11. apríl

Mynd af frétt Bólusetning gegn pneumókokkum hefst 11. apríl
11.04.2011

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins byrjar að bólusetja börn fædd 2011 við pneumókokkum frá og með 11.apríl 2011.

Pneumókokkar eru bakteríur sem geta valdið alvarlegum og lífshættulegum sjúkdómum svo sem heilahimnubólgu, blóðsýkingum, lungnabólgu, eyrnabólgu og kinnholusýkingum, einkum hjá yngstu börnunum. Hættulegastir þessara sjúkdóma eru heilahimnubólga og blóðsýkingar, en árlega greinast um 11 börn hér á landi með slíkar sýkingar.

Með því að bólusetja gegn hættulegustu stofnum bakteríunnar má koma í veg fyrir allt að 90% þessara sjúkdóma.

Einnig má ætla að bólusetningin dragi úr bráðum og þrálátum miðeyrnabólgum og lungnabólgum hjá ungum börnum. Þá er þess vænst að árleg sýklalyfjanotkun hjá þessum hópi minnki um allt að fjórðung, en það myndi draga úr hættu á útbreiðslu
sýklalyfjaónæmra pneumókokka.

Bólusetning gegn pneumókokkum verður hluti af almennum barnabólusetningum hér á landi frá apríl 2011. Börn sem fædd eru á árinu 2011 og síðar verða bólusett 3, 5 og 12 mánaða gömul. Upplýsingar um aðrar almennar barnabólusetningar má finna á síðum Ung-og smábarnaverndar.

Börn fædd fyrir árið 2011 falla ekki undir almenna bólusetningu gegn pneumókokkum, en foreldrar þeirra eiga þó kost á að láta bólusetja börn sín en þurfa sjálfir að standa straum af kostnaði bóluefnisins. Í þeim tilfellum er nauðsynlegt að fá lyfseðil fyrir bóluefninu hjá heimilislækni og hafa lyfið svo meðferðis þegar komið er í pantaðan tíma í bólusetningu.

Aukaverkanir:

Algengustu aukaverkanir eru verkur, roði og bólga á stungustað auk þess sem barnið getur fengið hita á bólusetningardegi. Alvarlegar aukaverkanir eru ekki þekktar.