Fræðadagarnir heppnuðust vel

Mynd af frétt Fræðadagarnir heppnuðust vel
22.11.2010

Fræðadagar heilsugæslunnar sem haldnir voru á Grand Hóteli í Reykjavík 18. og 19. nóvember eru greinilega að festast í sessi sem mikilvægur og nauðsynlegur þáttur í símenntun heilbrigðisstétta í heilsugæslu. Nú þegar er ákveðið að næsta ráðstefna af þessu tagi verði haldin dagana 10. og 11. nóvember 2011.

Ráðstefnan var vel sótt, en skráðir þátttakendur voru 370, þar af 108 utan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Í setningarræðu sinni sagði Svanhvít Jakobsdóttir forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins meðal annars:

Fræðadagar heilsugæslunnar eru vettvangur fræðslu og þróunar. Á fræðadögum njótum við þess að fram stíga einstaklingar sem, vegna þrautseigju sinnar og ástríðu fyrir starfi sínu og velferð fólksins í landinu, eru tilbúnir að deila með okkur nýrri þekkingu sem þeir hafa mótað og leyfa öðrum að njóta í störfum sínum.    

Dagskrá þingsins gaf góða mynd af umfangi heilsugæslunnar og fjölbreytileika viðfangsefna. Þá var dagskráin að þessu sinni sérstaklega sniðin fyrir sem flestar starfsstéttir heilsugæslunnar.

Almennt var gerður góður rómur að viðfangsefnum og efnistökum en alltaf má gera betur. Þar má nefna ábendingar um að gefa meiri tíma fyrir umræður fyrirlesara og þátttakenda. Fleiri ábendingar um það sem betur mætti fara eru vel þegnar.

Starfsfólk Þróunarstofunar mun von bráðar hefja undirbúning að dagskrá næsta þings og allir sem áhuga hafa á að leggja hönd á plóginn varðandi efni eru velkomnir í þann hóp.