Handbók í ung- og smábarnavernd - Endurskoðuð útgáfa

Mynd af frétt Handbók í ung- og smábarnavernd - Endurskoðuð útgáfa
14.10.2010

Á vef Landlæknisembættisins er komin út endurskoðuð útgáfa af handbókinni Ung- og smábarnavernd: leiðbeiningar um heilsuvernd barna 0–5 ára.

Fyrsta útgáfa handbókarinnar kom út fyrir rúmu ári síðan. Síðan hafa borist ábendingar frá starfsfólki heilsugæslustöðva um ýmsar breytingar sem teknar hafa verið til greina. Gerðar voru einhverjar breytingar í nær öllum köflunum.

Engar áherslubreytingar hafa verið gerðar fyrir utan að fyrirkomulagi bólusetninga hefur verið breytt á þann veg að nú er bólusett fyrir barnaveiki, stífkrampa og kíghósta við 4ra ára aldur, samkvæmt ákvörðun sóttvarnalæknis.

Handbókin Ung- og smábarnavernd. Leiðbeiningar um heilsuvernd barna 0–5 ára er gefin út í samstarfi við Þróunarstofu heilsugæslunnar. Ritstjórn hennar skipuðu Anna Björg Aradóttir, Geir Gunnlaugsson og Sesselja Guðmundsdóttir. Hún  verður endurskoðuð reglulega og eru allar ábendingar og tillögur að frekari efni vel þegnar.

Handbókin verður enn um sinn eingöngu birt á rafrænu formi á vef Landlæknisembættisins. Hún er birt bæði sem heildarskjal og einnig sem sundurliðaðir kaflar.

Á vefsíðunni er einnig að finna uppfært „Yfirlit yfir skoðanir og bólusetningar“ og nýjan „Leiðbeinandi lista yfir fræðslu í ung- og smábarnavernd“.

Þá er vert að benda á fræðsluefnið „Að verða maður með mönnum“ eftir Unni Guttormsdóttur sjúkraþjálfara, sem er bæði að finna á vef Heilsugæslunnar, vef Landlæknis og Heilsuvefnum 6H.