Vaxandi áhugi á heimilislækningum

Mynd af frétt Vaxandi áhugi á heimilislækningum
08.04.2010

Ljóst er að áhugi unglækna á heimilislækningum er nú vaxandi. Nýlega voru auglýstar 5 stöður til sérnáms í heimilislækningum og alls sóttu 19 læknar um þessar stöður.

Alma Eir Svavarsdóttir, kennslustjóri sérnáms í heimilislækningum er að vonum ánægð með þessa þróun og þann fjölda efnilega lækna sem sýnir faginu áhuga. Alma telur að þessi aðsókn geti átt sér margar skýringar.

Vonandi er aðalástæðan sú að mati Ölmu að fagið sé fjölbreytilegt og skemmtilegt og sérnám hér heima orðið það gott að það sé góður valkostur í stað þess að fara erlendis til að mennta sig frekar á þessu sviði. Þá bendir Alma á að það mætti auka afköst og gæði námsins til muna með minni tilkostnaði með þeirri einföldu aðferð að breyta reglugerðarákvæði um sérnám í heimilislækningum.

Í öðru lagi má vera að kreppan hafi sitt að segja, en nú er aftur farið að leggja meiri áherslu á mannlegu viðhorfin, en þau viðhorf eru aðalsmerki heimilislækninga. Þessum viðhorfum hefur verið fylgt eftir með stefnuyfirlýsingum heilbrigðisráðherra, sem boðar vaxandi áherslu á heilsugæslu. Á sama tíma hafa skapast erfiðleikar á Landspítalanum og læknar eiga erfiðara með að fá störf þar en áður.

Það bendir því allt til þess að í nánustu framtíð verði auðveldara að fá störf í heilsugæslunni en á sjúkrahúsum. Þetta er vonandi upphaf að sömu bylgju og varð hér á landi árið 1975, en þá jókst áhuginn á heimilislækningum gífurlega í kjölfar samþykkta Alþingis um að byggja heilsugæslustöðvar víða um land. Það er þá ekki seinna vænna, þar eð um 30% starfandi heimilislækna fara á eftirlaun innan nokkurra ára. Alma vill leggja áherslu á mikilvægi þess að sérnámsstöðum sé fjölgað úr 10 í 25 þannig að koma megi til móts við þarfir þjóðfélagsins.