Bólusetningarátak gegn svínainflúensu

Mynd af frétt Bólusetningarátak gegn svínainflúensu
24.02.2010

Heilbrigðisyfirvöld hvetja landsmenn eindregið til þess að láta bólusetja sig gegn svínainflúensu A(H1N1) og verjast á þann hátt nýju áhlaupi veikinnar sem búast má við síðar á þessu ári eða því næsta. Bólusetning er besta vörnin gegn svínainflúensunni og nóg er til af bóluefni í landinu.

Nú þarf ekki lengur að panta tíma í bólusetningu vegna svínainflúensu á heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins heldur er fólk velkomið þangað alla virka daga á almennum þjónustutíma án þess að gera boð á undan sér.
Áfram þarf að panta tíma fyrir bólusetningu á heilsugæslustöðvum utan höfuðborgarsvæðisins.

Tveir Íslendingar af hverjum fimm hafa nú þegar látið sprauta sig gegn svínainflúensu sem er eitt hæsta hlutfall sem þekkist í heiminum. Fullvíst er að bólusetningarnar og aðrar ráðstafanir til að verjast smiti (tíðir handþvottar, spritt á hendur, notkun pappírsklúta og fleira) hafa komið í veg fyrir að tugir þúsunda Íslendinga sýktust af svínainflúensunni fyrr í vetur.

Betur má, ef duga skal. Stór hluti þjóðarinnar er enn í smithættu og gera má ráð fyrir nýjum faraldri svínainflúensu hérlendis nema mun fleiri láti bólusetja sig.

Með bólusetningarátaki á næstu dögum og vikum er stefnt að því að koma í veg fyrir nýjan svínainflúensufaraldur hér á landi.