Formleg opnun Þróunarstofu og Þroska- og hegðunarstöðvar

Mynd af frétt Formleg opnun Þróunarstofu og Þroska- og hegðunarstöðvar
18.02.2010

Þann 12. febrúar 2010 var formleg opnun Þróunarstofu heilsugæslunnar og Þroska- og hegðunarstöðvar.

Með breytingum á skipuriti Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á árinu 2009 varð Þróunarstofa heilsugæslunnar til og verkefni er lutu að heilsuvernd, þróunarstarfi og rannsóknum felld undir hina nýju einingu. Jafnhliða varð Þroska- og hegðunarstöð til en hún var áður svið innan Miðstöðvar heilsuverndar barna.

Þessar nýju skipulagseiningar eru hluti af miðlægri starfsemi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þær vinna þvert á aðrar einingar stofnunarinnar og gegna auk þess mikilvægu landsbyggðarhlutverki. 

Þróunarstofan hefur það hlutverk að vera leiðandi í þróun og samræmingu heilsuverndar og heilsugæslustarfs á landsvísu. Henni er einnig ætlað að vera leiðandi afl í starfi á sviði vísinda, kennslu og gæðaþróunar og er það í samræmi við nýleg reglugerðarákvæði sem kveða á um forystuhlutverk stofnunarinnar á því sviði.

Með tilkomu Þróunarstofu er lögð áhersla á að skapa fagfólki heilsugæslunnar raunveruleg tækifæri og starfsaðstöðu til að sinna þróunarstörfum, vísindum og kennslu og að þar starfi fagfólk með góða þekkingu og færni í rannsóknar- og vísindastörfum. Það er mikilvægt að tryggja að kröfum um vísindalega aðferð sé fylgt og lagt er upp með það að lektorar og dósentar í læknis- og hjúkrunarfræði og öðrum heilbrigðisgreinum, sem starfa innan heilsugæslunnar, starfi í nánu samstarfi við Þróunarstofu og hafi þar aðstöðu til lengri eða skemmri tíma.  

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og Háskóli Íslands hafa gert með sér samstarfssamning um kennslu og rannsóknir í heilbrigðisvísindagreinum. Á grundvelli hans hefur Heilsugæslan undirritað samning um tengda stöðu við tvo af starfsmönnum Hjúkrunarfræðideildar Háskólans sem hafa nú aðsetur á Þróunarstofu.

Einnig má geta þess að Heilsugæslan og Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands hafa nýverið sett reglur um meðferð umsókna vegna vísindarannsókna innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og þá verður Vísindanefnd HH og HÍ sett á laggirnar innan tíðar.  

Á umliðnum árum hefur af hálfu stjórnvalda verið lögð mikil áhersla á að efla geð- og sálfélagslega þjónusta innan heilsugæslunnar og hefur ráðuneyti heilbrigðismála stutt þá uppbyggingu með sérstökum fjárveitingum. 

Á Þroska- og hegðunarstöð veitir þverfaglegur starfshópur börnum, foreldrum og fagfólki fjölbreytta þjónustu. Þar fer fram greining þroska- og hegðunarfrávika, veitt er margvísleg ráðgjöf, fræðsla og meðferð og eftirfylgd í þjónustuúrræði, auk þess sem stöðin sendur fyrir sérhæfðum námskeiðum fyrir fagfólk og fjölskyldur.  Á Þroska- og hegðunarstöð er unnið eftir markvissu skipulagi með mestu gæði að leiðarljósi, þar sem áhersla er á notalegt viðmót og einstaklingsmiðaða nálgun.

Þjónusta Þroska- og hegðunarstöðvar er ekki einungis veitt höfuðborgarbúum heldur einnig  öðrum landsvæðum sé ekki völ á sambærilegri þjónustu í nærumhverfi fjölskyldunnar. Til þjónustunnar er vísað af fagfólki heilbrigðis-stofnana og sérfræðiþjónustu skóla, barnalæknum og öðrum sjálfstætt starfandi sérfræðingum. 

Á myndinni eru frá vinstri: Svanhvít Jakobsdóttir, forstjóri HH, Jóhann Ágúst Sigurðsson prófessor, yfirmaður Þróunarstofu og Gyða Sigurlaug Haraldsdóttir, yfirmaður Þroska- og hegðunarstöðvar.