Auður Axelsdóttir forstöðumaður Geðheilsu - eftirfylgni/iðjuþjálfun fær hvatningarverðlaun

Mynd af frétt Auður Axelsdóttir forstöðumaður Geðheilsu - eftirfylgni/iðjuþjálfun fær hvatningarverðlaun
05.10.2009


Forvarna- og fræðslusjóðurinn Þú getur! hélt sína aðra styrktartónleika í Bústaðakirkju 30. september. Við það tækifæri hlaut Auður Axelsdóttir iðjuþjálfi,  forstöðumaður Geðheilsu - eftirfylgni/iðjuþjálfun hvatningarverðlaun. 
 
Markmið sjóðsins er að styrkja þá sem hafa átt við geðræn veikindi að stríða til náms, eyða fordómum og hvetja fagfólk til nýjunga í geðheilbrigðisþjónustu. Á tónleikunum fengu einnig þrír námsmenn styrki til náms og tveir styrki í formi tölvu.

Ólafur Þór Ævarsson, geðlæknir og formaður stjórnar sjóðsins, segir Auði fá verðlaunin fyrir að fitja upp á nýjungum í þjónustu við geðsjúka en hún hefur átt ríkan þátt í að efla geðheilbrigðisþjónustu utan stofnana og koma á samvinnu Heilsugæslunnar og Hugarafls sem eru samtök notenda.

Auður hyggst nota styrkinn til að efla starf með aðstandendum. Hún ætlar að fara til Boston til að heimsækja kollega sinn sem hefur starfað í áratugi með geðsjúkum og aðstandendum þeirra og einnig heimsækja Empowerment Center í sömu borg.